„Mér datt fyrst í hug að Pushwagner væri risinn upp frá dauðum,“ segir 79 ára gamall íbúi í rólegu hverfi bæjarins Moss, suður af Ósló í Noregi, sem hefur troðið illsakir við nágranna sína, par með börn, um árabil, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.
Vísar maðurinn þar til norska samtímalistamannsins Terje heitins Brofos, sem notaðist við listamannsnafnið Pushwagner og varð þekktur af litríkum teiknimyndastíl í óhefðbundnum verkum sínum.
Örugglega má kalla skilaboðin til viðmælanda NRK óhefðbundin um leið og þau fela í sér kalda kveðju sem myndin með fréttinni segir vísast til meira um en svo, að tíunda þurfi með útskýringum, enda hafa skærur nágrannanna náð augum og eyrum norskra fjölmiðla.
Deilur fólksins hafa staðið í mörg ár og haft í för með sér lögregluútköll þótt deiluaðilar nefni ekki berum orðum í viðtölum við fjölmiðla hvert raunverulegt þrætuepli sé. Konan með myndskreytta vegginn talar um hótanir, njósnir og áreiti án þess að greina nánar í hverju þetta felist.
Hún segir trévegginn hafa verið settan upp svo börn hennar og manns hennar gætu leikið körfubolta án þess að boltinn kastaðist sífellt út úr garðinum. Börn hafi svo gert sér það að leik að myndskreyta hann, ekki tekið fram hvort hennar eigin börn hafi þar verið að verki.
„Ég fór bara að hlæja, mér fannst þetta svo bjánalegt,“ segir sá 79 ára gamli sem flutti í hverfið fyrir sjö árum og býr með eiginkonu sem þarfnast umönnunar hans. „En þetta er ekkert fyndið, þetta er fullorðið fólk sem býr þarna og þá horfir málið öðruvísi við. Hér hefur verið mikill vitleysisgangur árum saman,“ segir hann.
Nágrannakonan með skjólvegginn er spurð hvort skilaboðin beinskeyttu séu ekki óráð ofan á þegar eldfimt ástand. „Það er ekki útilokað. En má ég ekki ýta aðeins til baka og segja að nú sé nóg komið?“ spyr hún á móti og segir ástandið lýjandi, hverfið sé rólegt og hún sé með börn á heimilinu. „Ég þarf ekki á því að halda að hafa þetta hangandi yfir mér,“ segir hún og bendir á að lítið verk sé að fjarlægja listaverkið á veggnum.
Moss-Avis (greindi fyrst frá en er með læsta áskriftarsíðu)