Michael Cohen, fyrrverandi lögfræðingur Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, segir í nýrri bók sinni að forsetinn hafi gert „augljósar og leynilegar tilraunir til þess að fá Rússa til að eiga við forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2016“.
Þá segir Cohen að Trump hafi vitað af mútugreiðslum til klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels meðan á forsetaframboði hans stóð.
Bók Cohens, „Disloyal: A Memoir“, verður gefin út á þriðjudag, en í bókinni málar Cohen ógnvekjandi mynd af forsetanum og þeim sem standa honum næst. Cohen líkir Trump og hans helstu stuðningsmönnum við mafíuna og segist sjálfur hafa tekið þátt í svikum og lygum forsetans.
Í frétt Washington Post, sem hefur bókina undir höndum, segir meðal annars að Trump hafi borið gríðarlegt hatur í brjósti gagnvart forvera sínum Barack Obama. Cohen segir í bókinni að Trump hafi ráðið svartan leikara til þess að mæta á fund sinn svo að Trump gæti þóst reka Obama úr starfi.
Cohen segir að Trump hafi almennt vanvirt svart fólk. „Nefndu eitt land sem er stjórnað af svörtum manni sem er ekki skítaland. Þetta eru allt helvítis klósett,“ á Trump að hafa sagt. Þá segir Cohen að þegar Nelson Mandela, fyrrverandi forseti Suður-Afríku, lést árið 2013 hafi Trump sagt að Mandela væri enginn leiðtogi, að minnsta kosti ekki leiðtogi sem hann bæri virðingu fyrir.
Þá segir Cohen að Trump sjái vart sólina fyrir kollega sínum Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Cohen segir ástæðuna fyrir því einfalda: Trump elski peninga og hafi oft, ætíð ranglega, haldið því fram að „Pútín sé ríkasti maður í heimi“.
Trump segist vera hrifinn af stjórnarháttum Pútíns sem hefur þann hæfileika að „taka yfir heila þjóð og stjórna henni eins og sínu eigin fyrirtæki, eins og Trump-veldinu í rauninni“, að sögn Cohens.