„Það vill mig enginn“

CHANTAL VALERY

Er hægt að fyr­ir­gefa þeim sem myrðir ást­vin manns? Þess­ari spurn­ingu er varpað fram í ný­legri um­fjöll­un The Atlantic og The Mars­hall Proj­ect þar sem fjallað er um rétt­ar­kerfið í Flórída. 

12. sept­em­ber 2018 biðu fimm upp­kom­in börn De­borah (hér eft­ir nefnd Debbie) Li­les á skrif­stofu sak­sókn­ara í Jackson­ville í Flórída, eft­ir því að hitta mann sem hafði barið móður þeirra til bana með golf­kylfu ári áður. 

Michelle, 38 ára, var með skýrslu lög­reglu varðandi morðið með sér. „Hef­ur þú séð mynd­ir af vett­vangi glæps­ins þar sem heili mömmu sést leka á eld­hús­gólfið?“ langaði hana að spyrja. „Því við höf­um gert það og þú ætt­ir líka að gera það.“

Dana, 42 ára, var með vegg­spjald með mynd af eld­flaug sem hún ætl­ar sér að sýna mann­in­um sem þau eru að fara að hitta. Á bak­hlið spjalds­ins hafði Debbie skrifað til son­ar Dana, sem var mjög einmana barn: „Þessi mynd fær mig til þess að hugsa til þín, eld­flauga­skot upp til Guðs.“

Ger­ald, 34 ára, sat ásamt systkin­um sín­um í her­berg­inu og velti fyr­ir sér upp­lýs­ing­un­um sem komu fram í gögn­um sak­sókn­ara. Um barnæsku glæpa­manns­ins. Ítrekað skil­inn eft­ir mat­ar­laus einn heima dög­um sam­an sem smá­barn. Fjög­urra ára fannst hann ráfandi um á hraðbraut. Systkini lét­ust í elds­voða. Beitt­ur kyn­ferðisof­beldi, hýdd­ur með raf­magns­snúru. Komið fyr­ir á þriðja tug fóst­ur­heim­ila og reyndi sjálfs­víg 13 ára gam­all. Ástæðan að eig­in sögn: „Það vill mig eng­inn.“

Grein Mars­hall Proj­ect

Líf þitt skipt­ir máli

Ger­ald vonaðist til að hægt væri að veita morðingj­an­um mögu­leika á að snúa til betri veg­ar. „Líf þitt skipt­ir máli,“ ætlaði Ger­ald að segja við hann. Systkini hans, Rachel, 43 ára og Rockey, 26 ára, bætt­ust fljót­lega í hóp­inn ásamt föður þeirra, Mike.

Þetta var þung­bær stund fyr­ir Mike og hann átti erfitt með gang í átt að her­berg­inu þar sem hann ætlaði að standa aug­liti til aug­lit­is mann­inn sem drap eig­in­konu hans til rúm­lega 40 ára á hrotta­leg­an hátt á heim­ili þeirra. Mike var með Bibl­í­una með sér. Bók sem var orðin snjáð af mikl­um lestri. Hann ætlaði að lesa upp úr Biblí­unni fyr­ir morðingja Debbie. En það sem Mike þráði voru svör. Því þrátt fyr­ir rann­sókn lög­reglu var mörg­um spurn­ing­um enn ósvarað. Varstu einn að verki? Reyndi Debbie að forða sér? Hvers vegna við?

Adam Lawson og Deborah Liles.
Adam Law­son og De­borah Li­les.

Sak­born­ing­ur­inn hafði geng­ist við kröfu fjöl­skyld­unn­ar um að svara spurn­ing­um henn­ar og játa sök. Þess í stað yrði hann ekki dæmd­ur til dauða held­ur fengi hann lífstíðardóm. En aðeins ef Li­les-fjöl­skyld­an væri sátt við svör hans og teldi að hann hefði sagt sann­leik­ann. Sam­komu­lagið var lagt fram af hálfu ný­kjör­ins sak­sókn­ara í Flórída og markaði tíma­mót í sak­sókn í morðmál­um í Banda­ríkj­un­um þar sem stutt var síðan morðið var framið. Áður hafði aðeins verið gert sam­komu­lag í tveim­ur öðrum morðmál­um og í þeim til­vik­um var lengra liðið frá glæpn­um.

Eli Hager, blaðamaður hjá The Mars­hall Proj­ect, vann að grein­inni í tvö ár áður en hún birt­ist en þar er meðal ann­ars fjallað um þær breyt­ing­ar sem hafa orðið í Jackson­ville eft­ir að Mel­issa W.Nel­son tók við embætti sak­sókn­ara í janú­ar 2017. 

Þegar Ang­ela Cor­ey gegndi embætti sak­sókn­ara (2009-2016) voru hundruð barna, flest svört, sótt til saka sem full­orðin og fleiri dæmd­ir til dauða held­ur en í nán­ast öll­um  lög­sagn­ar­um­dæm­um Banda­ríkj­anna. Í ág­úst 2016 birti vef­ritið The Nati­on grein und­ir fyr­ir­sögn­inni Er Ang­ela Cor­ey mis­kunn­ar­laus­asti sak­sókn­ari Banda­ríkj­anna? Þar var fjallað um ákvörðun embætt­is­ins um að ákæra 12 ára gaml­an dreng fyr­ir mann­dráp af ásetn­ingi (first-degree mur­der).

Í kosn­ing­un­um 2016 var Mel­issa Nel­son kjör­in sak­sókn­ari í henn­ar stað. Nel­son, sem er re­públi­kani líkt og for­veri henn­ar í embætti, hét því í kosn­inga­bar­átt­unni að beita fram­sæk­inni sak­sókn og feta svipaða leið og gert er víðar í Banda­ríkj­un­um þar sem betr­un er höfð að leiðarljósi.

Nel­son styður dauðarefs­ing­ar og fang­els­un þeirra sem fremja al­var­lega glæpi. Aft­ur á móti tel­ur hún ekki rétt að sama refs­ing eigi við um alla. Til að mynda ef þrjú börn stela brauði en ástæðan á bak við get­ur verið ólík. Eitt þeirra stel­ur því að áeggj­an annarra, annað vegna þess að það er svangt og það þriðja ánægj­unn­ar vegna. 

Melissa Nelson, saksóknari í Jacksonville í Flórída.
Mel­issa Nel­son, sak­sókn­ari í Jackson­ville í Flórída. Af stjórn­sýslu­vef Flórída

Eitt af mál­un­um sem Nel­son tók við af Cor­ey var morðið á Shel­by Farah árið 2013. Shel­by Farah var tví­tug stúlka af ar­ab­ísk­um upp­runa sem var skot­in til bana í vopnuðu ráni í farsíma­versl­un sem hún starfaði í. Það tók lög­reglu aðeins nokkra daga að hand­taka 21 árs gaml­an svart­an mann, James Rhodes, fyr­ir morðið en rétt­ar­höld­in frestuðust árum sam­an á sama tíma og Cor­ey krafðist dauðadóms yfir Rhodes þrátt fyr­ir and­mæli móður Farah, Dar­lene.

Í fyrstu hafði Dar­lene Farah viljað lauma byssu inn í rétt­ar­sal­inn og drepa Rhodes. Hún veit sem er að mál þar sem dauðarefs­ing á í hlut velkj­ast oft um í rétt­ar­kerf­inu árum sam­an, þau sundra fjöl­skyld­um og veita sjald­an sál­ar­ró. En eft­ir að fyrr­ver­andi al­rík­is­lög­reglumaður, sem hún réð til starfa til þess að rann­saka fortíð Rhodes, upp­lýsti hana um ým­is­legt úr lífs­hlaupi hans komst hún að þeirri niður­stöðu að dauðarefs­ing væri ekki lausn­in. Því hann væri ekki síður fórn­ar­lamb.

Shelby Farah.
Shel­by Farah. Af Face­book

Amma Rhodes tók hann til sín þegar hann var smá­barn og móðir hans stakk hann af og faðir hans var ít­rekað dæmd­ur í fang­elsi. Bíl­stjór­inn sem keyrði Rhodes á dag­heim­ilið minnt­ist þess að Rhodes hafi oft grátið úr hungri í bíln­um hjá hon­um og á fé­lags­miðstöð þar sem hann dvaldi oft í barnæsku var hann beitt­ur kyn­ferðis­legu of­beldi af hálfu ann­ars drengs sem og ráðgjafa.

Farah reyndi ít­rekað að fá heim­ild Cor­ey sak­sókn­ara til að hitta Rhodes að máli en fékk ávallt synj­un. Þegar Nel­son tók við starfi sak­sókn­ara féll hún frá kröfu um dauðarefs­ingu og heim­ilaði Farah og fjöl­skyldu henn­ar að hitta Rhodes.

Frétt New York Times

Á fund­in­um bað Farah Rhodes að lýsa út­liti dótt­ur henn­ar og hann gerði það og Farah lýsti mann­kost­um dótt­ur sinn­ar. Rhodes sagði Farah að eina ósk hans í líf­inu hafi verið að eign­ast fjöl­skyldu eins og þeirra. Ef svo hefði verið efaðist hann um að væri morðingi í dag. 

James Rhodes í réttarsalnum.
James Rhodes í rétt­ar­saln­um. Skjá­skot af YouTu­be

Und­an­far­in ár hef­ur Farah unnið með ung­menn­um sem minna hana á Rhodes og barnæsku hans. Rhodes skrifaði blaðamanni Mars­hall Proj­ect að sam­talið við Farah og að hún hafi viljað fyr­ir­gefa hon­um ódæðis­verkið hafi snert hann svo mikið að hann hafi ákveðið að ger­ast leiðbein­andi ungra manna í fang­els­inu þar sem hann mun afplána það sem eft­ir lif­ir æv­inn­ar. Að hjálpa öðrum sem eru í þörf.

De­borah og Michael Li­les gengu í hjóna­band árið 1975 en þau höfðu verið par frá því í mennta­skóla. Um miðjan ní­unda ára­tug­inn keypti fjöl­skyld­an hús sem var nefnt kast­al­inn af ná­grönn­um. Þegar börn­in uxu úr grasi fór Debbie að starfa sem tón­list­ar­kenn­ari í al­menna skóla­kerf­inu. 

Jackson­ville er líkt og mörg­um þétt­býl­is­stöðum í Banda­ríkj­un­um skipt upp eft­ir kynþátt­um og húsið sem fjöl­skyld­an bjó í var á sín­um tíma „hvítt hverfi“ en þegar þau fluttu inn voru flest­ir íbú­anna svart­ir. 

Liles-fjölskyldan.
Li­les-fjöl­skyld­an. Skjá­skot af Face­book

Hverfið er í norður­hluta Jackson­ville þar sem flest­ir íbú­arn­ir eru fá­tæk­ir og hið op­in­bera hef­ur lagt litla áherslu á að fjár­festa í skól­um og vel­ferðarþjón­ustu. Á sama tíma jókst glæpatíðni í hverf­inu og árið 1993 þegar Debbie var ein heima var bankað upp á hjá henni. Fyr­ir utan stóð maður sem spurði hvort hann gæti fengið að vinna í garðinum. Debbie sagði að eig­inmaður henn­ar gæti ör­ugg­lega aðstoðað hann þar sem hann starfaði við vinnumiðlun. En það skipti eng­um tog­um, maður­inn réðst inn og barði hana. Hún lét hann fá 50 Banda­ríkja­dali, gift­ing­ar­hring­inn og bíllykl­ana.  Hann batt hana og skildi hana eft­ir. Þegar lög­regla kom á vett­vang fann hún Debbie liggj­andi í blóði sínu. 

Debbie jafnaði sig en inn­brotið hafði veru­leg áhrif á fjöl­skyld­una og trú henn­ar á kristi­legri fyr­ir­gefn­ingu bar álits­hnekki. Hún og Mike sögðu í viðtali að árás­armaður­inn, Curt­is Head, sem var svart­ur og með lang­an brota­fer­il að baki, ætti að dúsa á bak við lás og slá það sem eft­ir væri æv­inn­ar. Mike gekk til liðs við sam­tök sem berj­ast fyr­ir hert­um refs­ing­um og var virk­ur í sam­tök­un­um.

Þrátt fyr­ir árás­ina ákvað Li­les-fjöl­skyld­an að búa áfram í hús­inu og skipti þar engu að ít­rekað var brot­ist inn hjá þeim og ýmsu stolið, jafn­vel garðskála í heilu lagi. 

Meira en tveim­ur ára­tug­um eft­ir fyrstu árás­ina, að morgni 23. mars 2017, var Debbie ein heima þegar Adam Christoph­er Law­son Jr., 24 ára að aldri, kom að hús­inu og kannaði hvort ein­hvers staðar væri hægt að kom­ast inn um op­inn glugga. Hann hafði ný­lokið afplánað sex ára dóm fyr­ir inn­brot og bjó í hjól­hý­sag­arði skammt frá. 

Adam Christopher Lawson.
Adam Christoph­er Law­son. Jackson­ville

Hann hafði gengið í gegn­um ým­is­legt á sinni stuttu ævi. Hann var smá­strák­ur þegar hann neytti fíkni­efna sem mamma hans hafði skilið eft­ir en hún var ít­rekað dæmd í fang­elsi fyr­ir fíkni­efna­brot. Sem ung­ling­ur fjár­magnaði hann neysl­una með inn­brot­um og þjófnuðum og var einu sinni lagður inn á sjúkra­hús vegna ofskömmt­un­ar.

Law­son fann sér leið inn í húsið og reyndi að fela sig þegar hann sá Debbie en hún varð vör við hann. Hann lýsti því síðar á þann veg að hún hafi gripið golf­kylfu sem hann hafi þrifið af henni og elt hana inn í eld­hús. Þar barði hann Debbie með kylf­unni þangað til hann höfuðkúpu­braut hana. Law­son stal öllu á milli him­ins og jarðar í hús­inu og hlóð góss­inu inn í Buick-bíl fjöl­skyld­unn­ar, svo sem tveim­ur sjón­varps­tækj­um, far­tölv­um, mat og fleira.

Nokkr­um tím­um síðar kom Mike heim í há­deg­inu og tók eft­ir að bíll­inn var horf­inn og fryst­ir­inn í bíl­skúrn­um stóð gal­op­inn. Þegar hann kom inn var golf­kylf­an það fyrsta sem mætti hon­um og blóðslett­ur um allt. 

Rækja sem ber ábyrgð á að ég er ekk­ill í dag

Ger­ald var að tala við nem­anda í síma þegar hann hlustaði á talskila­boðin frá föður sín­um sem sagði aðeins: Son­ur – Þeir náðu henni í þetta skiptið. 

Um kvöldið höfðu öll fimm börn Li­les-hjón­anna náð á heim­ili fjöl­skyld­unn­ar þar sem þau horfðu á lík móður þeirra borið út í lík­poka. Snemma morg­un­inn eft­ir ætluðu þau aft­ur inn á bernsku­heim­ilið en var synjað inn­göngu þar sem tækni­deild lög­regl­unn­ar var að störf­um í hús­inu. 

Systkin­in vildu aðstoða lög­reglu við leit­ina að morðingja Debbie og fóru á milli fyr­ir­tækja og kirkja í ná­grenn­inu þar sem þau fengu að skoða efni úr ör­ygg­is­mynda­vél­um í þeirri von að rek­ast á Buick-bif­reið for­eldr­anna sem morðing­inn hafði stolið. Með þeirra aðstoð tókst að púsla sam­an mynd­skeiði þar sem Buick-bif­reiðinni sést ekið inn á bíla­stæði hjól­hý­sag­arðsins þar sem Law­son bjó. Með mynd­skeiðið í fartesk­inu sem og fleiri upp­lýs­ing­ar gat lög­regl­an hand­tekið Law­son einni og hálfri viku eft­ir morðið. 

AFP

Þegar Law­son kom fyr­ir dóm­ara í fyrsta skiptið var Li­les-fjöl­skyld­an mætt snemma í rétt­ar­sal­inn. Þegar Law­son kom inn í sal­inn urðu þau öll undr­andi. Því það kom þeim á óvart hversu lág­vax­inn og góðleg­ur hann var. „Ég átti von á skæl­bros­andi skepnu,“ sagði Mike við Ger­ald. „Það er óþægi­legt að sjá að þessi smá­rækja ber ábyrgð á að ég er ekk­ill í dag.“

Eft­ir að dóm­ari hafði farið yfir rétt­indi Law­son hljóp Michelle út úr rétt­ar­saln­um og kastaði upp. Öll fjöl­skyld­an, að Rockey und­an­skild­um, vildi að Law­son yrði dæmd­ur til dauða. Rockey er al­farið á móti dauðarefs­ing­um og morðið á móður hans breytti ekki þeirri af­stöðu. Enn í dag er Ger­ald sann­færður um rétt­mæti dauðarefs­inga í ákveðnum mál­um. Ann­ars hafa þau öll skipt um skoðun. Eft­ir að hafa setið dög­um sam­an svo mánuðum skipti í rétt­ar­saln­um þar sem tek­ist var á um ýmis atriði svo sem hvort Law­son væri sak­hæf­ur. 

Fjöl­skyld­an hitti sak­sókn­ara reglu­lega á fund­um sem er meira aðgengi en flest fórn­ar­lömb sak­næms at­hæf­is fá. Stund­um leið þeim eins og upp­lýs­ingaflæðið væri of mikið til að mynda þegar þau hittu einn úr hópi sak­sókn­ara á göng­um dóms­húss­ins sem tjáði þeim að það væri ekki nóg með að Debbie hafi verið bar­in til bana held­ur bæri hún greini­leg merki kyrk­ing­ar. Rétt­ar­meina­fræðing­ur mat það svo út frá því að all­ar æðar í aug­um henn­ar hefðu sprungið. Morðið hafi verið ein­stak­lega viðbjóðslegt og grimmi­legt þannig að auðveld­lega væri hægt að fara fram á dauðarefs­ingu yfir morðingj­an­um. 

AFP

Sum­arið 2018 tjáði Law­son lög­manni sín­um að hann væri reiðubú­inn til að játa sök ef fallið yrði frá beiðni um dauðarefs­ingu af hálfu sak­sókn­ara. Á fundi með sak­sókn­ara sagði Mike að hann væri reiðubú­inn til þess að skoða til­boð Law­sons gegn því að fjöl­skyld­an megi hitta hann fyrst.

Nel­son sagði við Li­les fjöl­skyld­una að hún væri reiðubú­in til að skoða það enda hefði hún góða reynslu af því í tveim­ur morðmál­um. 

Ný tækni leiddi til hand­töku

Þar á meðal var fjöl­skylda Freddie Farah en hann var skot­inn til bana í mat­vöru­versl­un sinni í Jackson­ville árið 1974. Ára­tug­um sam­an var morðið óleyst morðgáta, það eina sem lög­regl­an hafði í hönd­un­um voru fingra­för á pakka með köku­dufti, krukku með kökukremi og gos­dós sem hafði verið skil­in eft­ir við af­greiðslu­borðið. 

Árið 2016 tókst með nýrri og bættri tækni að tengja fingra­för­in við mann sem bjó í New Or­le­ans. Johnie Lew­is Miller, sem er einnig þekkt­ur und­ir lista­manns­nafn­inu Louie frændi. Götulistamaður sem hafði í ára­tugi haft at­vinnu af því að standa eins og mynda­stytta með hatt og bindi með banda­ríska fán­an­um á götu­horni í franska hverfi borg­ar­inn­ar. 

Johnnie Lewis Miller og Freddie Farah.
Johnnie Lew­is Miller og Freddie Farah. Skjá­skot af Twitter

Miller, sem var orðinn 63 ára gam­all, var fram­seld­ur til Flórída þar sem hann var ákærður fyr­ir morð. En þegar eina vitnið að morðinu lést voru litl­ar lík­ur á sak­fell­ingu. Níu mánuðum áður hafði máli Shel­by Farah lokið á far­sæl­an hátt og Nel­son ákvað að reyna aft­ur. Hún lagði til að Miller myndi játa á sig morðið og svara öll­um þeim spurn­ing­um sem fjöl­skylda Freddie Farah hefði fram að færa gegn því að Nel­son yrði ekki dæmd­ur í fang­elsi. Nel­son samþykkti og fundi var komið á 20. apríl 2018.

Málm­hlut­ur sem breytti líf­inu til fram­búðar

Þegar morðingi föður Bobby Farah gekk inn í her­bergið setti Bobby hönd­ina í vas­ann og dró upp byssu­kúlu og leit í augu Johnie Lew­is Miller sem hafði skotið Freddie Farah til bana fyr­ir ára­tug­um síðan og sagði: „Þessi litli málm­hlut­ur breytti lífi okk­ar til fram­búðar.“ 

Nel­son seg­ir að það eina sem hafi komið upp í hug­ann var hugs­un­in um að Bobby væri vopnaður. En Bobby vildi bara fá upp­lýs­ing­ar frá Miller um þenn­an dag sem breytti lífi fjöl­skyld­unn­ar til fram­búðar. 

Miller greindi þeim frá því að hann hefði al­ist upp við mikla fá­tækt og þegar hann var 17 ára hefði hann fundið byssu í hverf­inu. Hann fór inn í búðina hjá Freddie og til­kynnti að um vopnað rán væri að ræða. Freddie reyndi að verja stúlk­una sem vann á kass­an­um, sem var eina vitnið að morðinu, en við þetta brá Miller og hleypti af byss­unni með þeim af­leiðing­um að Bobbie lést. Miller þekkti Freddie að góðu einu sam­an. Hann hafði oft gefið Miller sæl­gæti og reynst hon­um vel alla tíð. Ekkja Freddie, Nadya, komst við þegar Miller lýsti aðstæðum sín­um á þess­um tíma og ákvað að fyr­ir­gefa hon­um. 

Viku síðar hitt­ust þau aft­ur í rétt­ar­saln­um þar sem Miller játaði sök og var dæmd­ur til afplán­un­ar í jafn marga daga og hann hafði þegar setið inni eft­ir framsalið, 344 daga. Hann muldraði takk fyr­ir og sneri aft­ur til New Or­le­ans þar sem hann kem­ur enn fram sem Louie frændi. Að minnsta kosti þegar kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn kem­ur ekki í veg fyr­ir það. 

Þegar blaðamaður­inn fór að hitta Miller fylgd­ist hann með Miller bregða á leik með börn­um og hvort held­ur sem það voru börn eða full­orðnir virt­ust all­ir þekkja hann og heilsa hon­um glaðlega.

Miller sagði að í upp­hafi hefði hann samþykkt að hitta Farah-fjöl­skyld­una í þeim eina til­gangi að losna und­an fang­elsis­vist. En að hafa getað veitt þeim það sem þau höfðu beðið um – upp­lýs­ing­ar – veitti hon­um einnig hug­ar­ró.

„Það fá ekki all­ir það tæki­færi í líf­inu,“ seg­ir Miller og bæt­ir við að hann hafi und­an­farna ára­tugi reynt að gleyma og nán­ast tek­ist það. „Ég reyni að upp­lifa gleði og gleðja aðra. Það er mín leið til þess að muna.“

Fyr­ir Nel­son var sam­komu­lagið sönn­un á því að rétt sé að láta gerend­ur og þolend­ur hitt­ast og reyna að ná sátt í saka­mál­um, jafn­vel morðmál­um.  Eða eins og Bobby seg­ir þá skipt­ir svo miklu máli að ger­and­inn viður­kenni hvað hann hafi gert og að hann iðrist. 

Ég fyr­ir­gef þér– ég get ekki

Þegar dag­ur­inn sem Li­les-fjöl­skyld­an átti að hitta morðingja Debbie í sept­em­ber 2018 fyllt­ust þau eft­ir­vænt­ingu og von. Ger­ald skrifaði Law­son bréf sem var lesið fyr­ir hann í fang­els­inu nokkr­um dög­um fyr­ir fund­inn. „Ég skrifa þér til þess að segja að ég fyr­ir­gef þér. Engu skipt­ir hvað þú hef­ur gert eða munt gera, Guð mun geta náð fram góðverk­um í gegn­um þig.“

Skömmu áður en Law­son hitti fjöl­skyld­una sat hann í járn­um með vopnaða verði allt í kring. Hann hélt hönd­un­um utan um höfuðið og fæt­ur hans skulfu. Síðan heyr­ist hann muldra: „Ég geti ekki, ég get ekki. Eft­ir allt sem ég hef tekið frá þeim, ég get ekki...“ 

Lög­menn Law­son reyndu að fá hann til að skipta um skoðun: „Skil­urðu að þetta er það eina sem fjöl­skyld­an biður um?“ sögðu þeir. „Skil­ur þú að þú ert að senda þeim risa­stórt fokk­merki.“ En Law­son hætti ekki að muldra þessi þýðing­ar­miklu orð: „Ég get ekki.“

Þá reyndi Miller að hvetja Law­son til dáða með því að segja hon­um hversu vel hefði farið í fyrri mál­um. „Með fullri virðingu,“ svaraði Law­son. „Ég get það bara ekki.“

Eft­ir að hafa reynt að tala Law­son til í rúm­an klukku­tíma fór Nel­son til fjöl­skyld­unn­ar og sagði þeim hver staðan væri. „Mér þykir það leitt en hann ætl­ar ekki að gera það. Hann neit­ar.“

Fjöl­skyld­an starði orðlaus á hana. Þau höfðu und­ir­búið sig á all­an mögu­leg­an hátt en eng­inn hafði átt von á þessu. „Ég held að það hafi verið bréf Ger­alds, seg­ir Pam Hazel, sak­sókn­ari hjá embætti rík­is­sak­sókn­ara. Law­son hafi talið að fjöl­skyld­an væri full reiði og mis­kunn væri ekki í boði. 

Gat framið hrotta­legt morð en ekki hitt þau

„Ef hann get­ur ekki tekið fyr­ir­gefn­ingu þá getið þið sagt hon­um að við fyr­ir­gef­um hon­um ekki,“ sagði Dana. Faðir henn­ar bað sak­sókn­ara um að reyna að fá Law­son til að taka þátt í fund­in­um en á sama tíma sett­ist fjöl­skyld­an niður og fór yfir stöðuna. Þau gætu lagt til rétt­ar­höld þar sem farið yrði fram á dauðarefs­ingu og vænt­an­lega yrði það niðurstaðan. En þá myndi Law­son vænt­an­lega áfrýja og það tæki ára­tugi þangað til af­tak­an færi fram. Það sem eft­ir lifði æv­inn­ar þyrftu þau að tak­ast á við að mann­eskja yrði tek­in af lífi.

Það sem vakti mesta furðu hjá Li­les-fjöl­skyld­unni var að þessi maður gæti framið hrotta­legt morð á meðan hann gæti ekki sest niður með þeim. En sam­visku­bit Law­son var það mikið að hann treysti sér ein­fald­lega ekki til að horf­ast í augu við verknaðinn og áhrif hans á fjöl­skyld­una. 

Lést úr harmi

Næstu dag­ar á eft­ir voru erfiðir, ekki síst hjá Mike. Hann gat ekki sofið og ef hann heyrði minnsta þrusk greip hann byssu full­viss um að inn­brotsþjóf væri að ræða. 

Nokkr­um vik­um síðar fannst Mike lát­inn á eld­hús­gólf­inu. Rétt­ar­meina­fræðing­ur gaf út dánar­or­sök­ina: Lést úr harmi. En Michelle dótt­ir hans er á ann­arri skoðun, það var upp­byggi­leg rétt­vísi sem drap pabba, sagði hún við blaðmann Mars­hall Proj­ect. 

Nú tveim­ur árum síðar hef­ur Mel­issa Nel­son ekki enn áttað sig á því hvað það var sem mis­fórst í mál­inu og hún hef­ur ekki boðið upp á þenn­an mögu­leika í morðmáli aft­ur.

Réttað var yfir Adam Law­son í fe­brú­ar í fyrra. Þar játaði hann að hafa myrt De­borah Li­les tveim­ur árum fyrr líkt og hann hafði kom­ist að sam­komu­lagi um við sak­sókn­ara gegn því að vera ekki tek­inn af lífi. Law­son var dæmd­ur í lífstíðarfang­elsi. 

AFP

Við rétt­ar­höld­in fengu börn De­borah að tjá sig og sat Law­son skjálf­andi og nötrandi án þess að líta upp þegar systkin­in lýstu því þegar Law­son braust inn á heim­ili for­eldra þeirra og barði móður þeirra til bana með golf­kylfu og steik­ingarpönnu.

„Hversu hent­ugt er það að hann þarf ekki að horfa upp á hvað hann gerði ann­arri mann­eskju. Hann drap ekki bara mömmu mína. Hann slátraði henni. Hann eyddi henni,“ sagði Michelle McFatter við rétt­ar­höld­in. Hún seg­ir að þau hafi sýnt mis­kunn með því að samþykkja að hann fengi tvö­fald­an lífstíðardóm enda hefði hann aldrei verið tek­inn af lífi með sam­bæri­leg­um hætti og hann drap móður þeirra. Þau von­ast til þess að Law­son verði að mestu haldið í ein­angr­un í fang­els­inu það sem eft­ir lif­ir æv­inn­ar. 

Um­fjöll­un ABC

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert