Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, hefur náðað liðsmann bandaríska sjóhersins sem var dæmdur fyrir að myrða transkonu.
Joseph Scott Pemberton hefur verið í fangelsi síðan í október 2014 fyrir að hafa drepið Jennifer Laude, sem hann hitti á bar er hann var í fríi frá heræfingum í borginni Olongapo.
Í síðustu viku úrskurðaði dómstóll að Pemberton gæti losnað fyrr úr fangelsi vegna góðrar hegðunar. Náðun Dutertes þýðir að Pemberton er núna laus allra mála þrátt fyrir að hafa aðeins afplánað helming af tíu ára dómnum sem hann hlaut.
Lögmaður fjölskyldu Laude fordæmdi ákvörðunina og sagði að með henni væri dómskerfi landsins gert að athlægi.
Þeir sem eru mótfallnir veru bandarískra hermanna á Filippseyjum hafa einnig mótmælt ákvörðun Dutertes.