Börðu ungan mann til bana

Willy Monteiro Duarte.
Willy Monteiro Duarte. Skjáskot af Facebook

Ítalska lög­regl­an hef­ur hand­tekið fjóra sem eru grunaðir um að hafa tekið þátt í því að berja ung­an mann til bana skammt frá Róm um helg­ina.

Ráðist var á Willy Monteiro Duarte, sem er 21 árs að aldri, þegar hann kom skóla­bróður sín­um til bjarg­ar þegar sá lenti í deil­um að því er seg­ir í ít­ölsk­um fjöl­miðlum í dag.

Þegar Duarte og vin­ir hans héldu heim á leið í bæn­um Collefero, sem er 50 km aust­ur af Róm, stöðvaði bif­reið hjá þeim og fjór­ir menn stukku út úr bíln­um að sögn vitna.

Vin­um hans tókst að forða sér á hlaup­um en þegar þeir sneru til baka fundu þeir Duarte deyj­andi í blóðpolli. 

Fjór­menn­ing­arn­ir voru hand­tekn­ir á krá þar skammt frá og að sögn dag­blaðsins Il Messa­gero höfðu þeir ekki einu sinni þvegið blóðið af hönd­um sér þegar lög­reglu bar að garði. 

Um er að ræða bræður sem eru sér­hæfðir í blönduðum bar­dagalist­um og tvo fé­laga þeirra. 

Ekki er talið að kynþátta­hat­ur hafi verið kveikj­an að árás­inni en for­eldr­ar Duarte eru inn­flytj­end­ur frá Græn­höfðaeyj­um. 

Öll helstu dag­blöð Ítal­íu birtu mynd af Duarte á forsíðunni í dag og hef­ur verið lýst yfir sorg­ar­degi í Collefero í dag sem og í ná­granna­bæn­um Paliano þar sem Duarte bjó en hann var nemi í mat­reiðslu. 

Bæj­ar­stjór­inn í Paliano seg­ir að Duarte hafi verið frá­bær maður sem var ein­fald­lega á röng­um stað á röng­um tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert