Ítalska lögreglan hefur handtekið fjóra sem eru grunaðir um að hafa tekið þátt í því að berja ungan mann til bana skammt frá Róm um helgina.
Ráðist var á Willy Monteiro Duarte, sem er 21 árs að aldri, þegar hann kom skólabróður sínum til bjargar þegar sá lenti í deilum að því er segir í ítölskum fjölmiðlum í dag.
Þegar Duarte og vinir hans héldu heim á leið í bænum Collefero, sem er 50 km austur af Róm, stöðvaði bifreið hjá þeim og fjórir menn stukku út úr bílnum að sögn vitna.
Vinum hans tókst að forða sér á hlaupum en þegar þeir sneru til baka fundu þeir Duarte deyjandi í blóðpolli.
Fjórmenningarnir voru handteknir á krá þar skammt frá og að sögn dagblaðsins Il Messagero höfðu þeir ekki einu sinni þvegið blóðið af höndum sér þegar lögreglu bar að garði.
Um er að ræða bræður sem eru sérhæfðir í blönduðum bardagalistum og tvo félaga þeirra.
Ekki er talið að kynþáttahatur hafi verið kveikjan að árásinni en foreldrar Duarte eru innflytjendur frá Grænhöfðaeyjum.
Öll helstu dagblöð Ítalíu birtu mynd af Duarte á forsíðunni í dag og hefur verið lýst yfir sorgardegi í Collefero í dag sem og í nágrannabænum Paliano þar sem Duarte bjó en hann var nemi í matreiðslu.
Bæjarstjórinn í Paliano segir að Duarte hafi verið frábær maður sem var einfaldlega á röngum stað á röngum tíma.