Oddur Þórðarson
Hundruð vopnaðra stuðningsmanna Trumps Bandaríkjaforseta mynduðu bílalest í úthverfi Portland í Oregonríki í kvöld. Mikil mótmæli hafa staðið yfir í borginni í um 100 daga eða allt frá því að George Floyd var myrtur af lögreglumönnum í Minneapolis í Minnesotaríki í maí síðastliðnum.
Mótmælin eru sögð friðsamleg að mestu leyti þótt mikill hiti sé á meðal þeirra sem mótmæla lögregluofbeldi, lögreglunnar sjálfrar og öfgahægrimanna sem styðja margir hverjir Donald Trump Bandaríkjaforseta. Trump hefur sagt að umsátursástand sé í Portland og þar fremji óþjóðalýður hryðjuverk á innlendri grundu.
Það sem af er mótmælunum hafa að minnsta kosti tveir látið lífið. Fyrst þegar stuðningsmaður Trumps var skotinn til bana af mótmælanda úr röðum Antifa-samtakanna og svo þegar sá maður féll í skotbardaga við lögreglu, en lögregla kom að heimili mannsins og ætlaði að færa hann í varðhald, grunaðan um morð.
Mótmælendur vestra, sem mótmæla lögregluofbeldi í garð svartra, virðast ekkert ætla að gefa eftir þrátt fyrir mótspyrnu stuðningsmanna Trumps. Í kjölfar dauða George Floyds hafa mótmæli geisað um nær öll Bandaríkin en líklega hafa þau verið einna mest í Portland. Í Portland búa um 650 þúsund manns og eru 70% þeirra hvít og hafa mótmælafundir farið þar fram á nær hverju kvöldi síðan í maí.
„Portland er eins og þriðja heims ríki eins og sjá má á öllu veggjakrotinu, íkveikjunum og gripdeildum mótmælenda. Þetta er að gerast í borgum um öll Bandaríkin,“ er haft eftir Carol Williams, ellilífeyrisþega sem sinnir sjálfboðastarfi fyrir Repúblikanaflokkinn, í frétt AFP.
Líkt og áður sagði mynduðu stuðningsmenn Trumps bílalest sem keyrði í gegnum úthverfi Portland. Bílarnir voru skreyttir með borða með nafni Trumps og myndum af forsetanum sem og bandaríska fánanum og öðrum slagorðum til stuðnings Trump og Repúblikanaflokknum. Aðeins eru um tæpir tveir mánuðir þar til Bandaríkjamenn kjósa sér forseta og stendur valið milli Trumps og Joes Bidens, fyrrverandi varaforseta í tíð Baracks Obama.