Heitir umbótum eftir dauða Daniels Prudes

Borgarstjóri Rochester í New York-ríki hefur heitið umbótum innan lögreglunnar vegna dauða Daniels Prudes sem lést eftir að hafa verið handtekinn.

Prude lést á sjúkrahúsi í mars, viku eftir að lögregluþjónar settu svokallaða hrákahettu yfir höfuð hans og þvinguðu höfuð hans að götunni. Hettan er hönnuð til að koma í veg fyrir að lögreglan fái yfir sig hráka þeirra sem eru í haldi.

Borgarstjórinn Lovely Warren tilkynnti á blaðamannafundi að skipulagi innan lögreglunnar yrði breytt á „næstu vikum, mánuðum og árum“, að sögn BBC.

Sjö lögregluþjónum hefur verið vikið frá störfum vegna atviksins. Á laugardaginn tilkynnti ríkissaksóknari New York, Letitia James, að rannsókn myndi fara fram á dauða Prudes, sem var 41 árs.

Hann átti við andleg veikindi að stríða og minntist Warren á það á blaðamannafundinum. „Þarna var manneskja sem þurfti á hjálp að halda og samúð. Á þessu augnabliki gafst okkur tækifæri til að vernda hann,“ sagði hún. „Við þurfum að átta okkur á því að á þessu augnabliki gerðum við það ekki.“

Um eitt þúsund mótmælendur gengu um götur Rochester í gærkvöldi þar sem lögregluofbeldi var mótmælt en enginn var handtekinn.

Borgarstjóri Rochester á blaðamannafundinum.
Borgarstjóri Rochester á blaðamannafundinum. AFP
Mótmæli í Rochester.
Mótmæli í Rochester. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert