Franskur sóttvarnalæknir, Antoine Fontanet, óttast að ef nýjum kórónuveirusmitum heldur áfram að fjölga á svipuðum hraða og nú er geti skapast tvísýnt ástand í nokkrum héruðum landsins í desember.
Fontanet segir í samtali við LCI (La Chaîne Info) að yfirvöld verði að grípa til frekari sóttvarnaráðstafana. Síðustu viku hafi nýjum smitum fjölgað um 30% og innlögnum á sjúkrahús fjölgaði um 15%. „Það er betra að bregðast við strax. Því fyrr sem við grípum til aðgerða þeim mun minni líkur eru á að herða þurfi reglurnar enn frekar. Ef við bíðum í 15 daga þá verður þetta harkalegra og varir lengur,“ segir hann.
Í morgun var greint frá því að 7.071 nýtt smit hefði verið staðfest síðasta sólarhringinn. Hlutfall jákvæðra sýna hefur aukist úr 4,3% í 4,9% á einni viku en hlutfallið var 3,9% í lok ágúst.
28 héruð Frakklands á meginlandinu eru skráð sem rauð svæði. Heilbrigðisráðherra Frakklands, Olivier Véran, ræðir nú um það við vísindaráð landsins varðandi COVID-19 að létta á reglum varðandi sóttkví og einangrun. Tæplega helmingur þeirra sem greindust með COVID-19 í liðinni viku er með annaðhvort engin sjúkdómseinkenni eða mjög mild. Mest er aukning smita hjá aldurshópnum 15-19 ára en 44% nýrra smita eru í þeim aldurshópi.
Alls eru um 4.700 á sjúkrahúsi vegna COVID-19 í Frakklandi og af þeim eru 480 á gjörgæslu. Meirihluti þeirra er á gjörgæsludeildum í París Île-de-France héraði og Provence-Alpes-Côte d'Azur og Hauts-de-France.
Heilbrigðisráðherra Bretlands, Matthew Hancock, segir það ekki rétt að stjórnvöld hafi misst tökin á útbreiðslu veirunnar líkt og haldið var fram í gær. Hann ítrekar aftur á móti að það sé nauðsynlegt að allir landsmenn fylgi reglum varðandi sóttvarnir. „Við getum aðeins gert þetta í samstarfi alls samfélagsins. Allir hafa þar hlutverki að gegna.“