Nýr útvarpsstjóri BBC, Tim Davie, lét það verða sitt fyrsta verk í embætti að lýsa yfir því að ef fréttamenn og dagskrárgerðarfólk breska ríkisútvarpsins vildi taka virkan þátt í þjóðmálaumræðu og pólitískum deilum færi best á því að þeir ynnu hjá öðrum fjölmiðlum. Ríkisútvarpið yrði að vera hafið yfir allan vafa um hlutleysi miðilsins og þeirra sem þar störfuðu.
Davie tók við sem útvarpsstjóri um mánaðamótin, en í ræðu til starfsmanna á þriðja degi drap hann meðal annars á innanhússskýrslu, sem tekin var saman vegna ásakana um hlutdrægni. Þar kemur fram að lítill hópur fréttamanna hafi tjáð sig með þeim hætti á félagsmiðlum um hitamál í þjóðmálaumræðu að réttmætar efasemdir hafi komið fram um hvort BBC rækti hlutleysisskyldu sína.
Davie sagði í ræðu sinni að BBC mætti ekki vera værukært um hlutverk sitt og framtíð. Það ætti sér ekki sjálfstæðan og óafsalanlegan tilvistarrétt, heldur væri hann skilyrðum háður og BBC yrði að ávinna sér hann og viðhalda honum. Mikilvægt væri því að ríkisútvarpið endurnýjaði skuldbindingar sínar um hlutleysi og að það tæki ekki aðeins til þess sem starfsmenn þess segðu á vettvangi ríkisútvarpsins, heldur einnig á félagsmiðlum. Þar töluðu þeir ekki aðeins í eigin nafni, því almenningur tengdi þá skiljanlega við stofnunina.
„Of margir telja okkur mótuð af tilteknu pólitísku viðhorfi,“ sagði Davie og bætti við að BBC yrði að þjóna almenningi „þvert á allar stjórnmálaskoðanir“.
Gagnrýni á BBC er ekki ný af nálinni, en margir telja að þar hafi seytlað í gegn stjórnmálaafstaða ýmissa fréttamanna, en þeir standa margir til vinstri við miðju. Eins hefur verið að því fundið að þeir séu flestir úr hópi hinnar velmegandi miðstéttar í Lundúnum og endurspegli engan veginn fjölbreytileika Bretlands utan höfuðborgarsvæðisins. Þær umkvartanir urðu sérstaklega áberandi eftir Brexit-kosningar. Sumpart þótti það skína í gegn í fréttamati, en aðallega þó á félagsmiðlum, sérstaklega Twitter, þar sem sumir fréttamenn og dagskrárgerðarfólk drógu hvergi af sér. Steininn þótti þó taka úr í sumar, þegar áhöld voru um hvort Dominic Cummings, hinn valdamikli aðstoðarmaður Boris Johnsons forsætisráðherra, hefði rofið ferðabann vegna kórónuveirunnar. Þá tóku margir fréttamenn mjög eindregna afstöðu og ekki aðeins á félagsmiðlum. Emily Maitlis, fréttamaður á BBC, flutti t.d. langa einræðu um málið í fréttaskýringarþættinum Newsnight, sem þótti fara langt út fyrir þann ramma, sem ríkisútvarpinu er sniðinn.
Á því hyggst Tim Davie taka með afdráttarlausum hætti, bæði á miðlum BBC og félagsmiðlum. Ekki sé nóg að jafnvægi sé í skoðunum, fréttamenn BBC eigi einfaldlega ekki að vera að flíka skoðunum sínum. Nýjar reglur yrðu settar um notkun þeirra á félagsmiðlum og þeim yrði framfylgt af hörku.
„Ef menn vilja vera skoðanaríkir pistlahöfundar eða fylkja sér um málstaði á félagsmiðlum, þá er það gott og gilt. En þá ættu menn ekki að vinna fyrir BBC,“ sagði Tim Davie, hinn nýi útvarpsstjóri BBC.