Nýr stjóri BBC tekur hlutleysið alvarlega

Tim Davie vill að tiltrú almennings á hlutleysi BBC verði …
Tim Davie vill að tiltrú almennings á hlutleysi BBC verði endurvakin.

Nýr út­varps­stjóri BBC, Tim Davie, lét það verða sitt fyrsta verk í embætti að lýsa yfir því að ef frétta­menn og dag­skrár­gerðarfólk breska rík­is­út­varps­ins vildi taka virk­an þátt í þjóðmá­laum­ræðu og póli­tísk­um deil­um færi best á því að þeir ynnu hjá öðrum fjöl­miðlum. Rík­is­út­varpið yrði að vera hafið yfir all­an vafa um hlut­leysi miðils­ins og þeirra sem þar störfuðu.

Davie tók við sem út­varps­stjóri um mánaðamót­in, en í ræðu til starfs­manna á þriðja degi drap hann meðal ann­ars á inn­an­húss­skýrslu, sem tek­in var sam­an vegna ásak­ana um hlut­drægni. Þar kem­ur fram að lít­ill hóp­ur frétta­manna hafi tjáð sig með þeim hætti á fé­lags­miðlum um hita­mál í þjóðmá­laum­ræðu að rétt­mæt­ar efa­semd­ir hafi komið fram um hvort BBC rækti hlut­leys­is­skyldu sína.

Til­vist­ar­rétt­ur rík­is­út­varps ekki sjálf­gef­inn

Davie sagði í ræðu sinni að BBC mætti ekki vera værukært um hlut­verk sitt og framtíð. Það ætti sér ekki sjálf­stæðan og óafsal­an­leg­an til­vist­ar­rétt, held­ur væri hann skil­yrðum háður og BBC yrði að ávinna sér hann og viðhalda hon­um. Mik­il­vægt væri því að rík­is­út­varpið end­ur­nýjaði skuld­bind­ing­ar sín­ar um hlut­leysi og að það tæki ekki aðeins til þess sem starfs­menn þess segðu á vett­vangi rík­is­út­varps­ins, held­ur einnig á fé­lags­miðlum. Þar töluðu þeir ekki aðeins í eig­in nafni, því al­menn­ing­ur tengdi þá skilj­an­lega við stofn­un­ina.

„Of marg­ir telja okk­ur mótuð af til­teknu póli­tísku viðhorfi,“ sagði Davie og bætti við að BBC yrði að þjóna al­menn­ingi „þvert á all­ar stjórn­mála­skoðanir“.

Gagn­rýni á BBC er ekki ný af nál­inni, en marg­ir telja að þar hafi seytlað í gegn stjórn­mála­afstaða ým­issa frétta­manna, en þeir standa marg­ir til vinstri við miðju. Eins hef­ur verið að því fundið að þeir séu flest­ir úr hópi hinn­ar vel­meg­andi miðstétt­ar í Lund­ún­um og end­ur­spegli eng­an veg­inn fjöl­breyti­leika Bret­lands utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Þær um­kvart­an­ir urðu sér­stak­lega áber­andi eft­ir Brex­it-kosn­ing­ar. Sumpart þótti það skína í gegn í frétta­mati, en aðallega þó á fé­lags­miðlum, sér­stak­lega Twitter, þar sem sum­ir frétta­menn og dag­skrár­gerðarfólk drógu hvergi af sér. Stein­inn þótti þó taka úr í sum­ar, þegar áhöld voru um hvort Dom­inic Cumm­ings, hinn valda­mikli aðstoðarmaður Bor­is John­sons for­sæt­is­ráðherra, hefði rofið ferðabann vegna kór­ónu­veirunn­ar. Þá tóku marg­ir frétta­menn mjög ein­dregna af­stöðu og ekki aðeins á fé­lags­miðlum. Em­ily Maitl­is, fréttamaður á BBC, flutti t.d. langa ein­ræðu um málið í frétta­skýr­ing­arþætt­in­um Newsnig­ht, sem þótti fara langt út fyr­ir þann ramma, sem rík­is­út­varp­inu er sniðinn.

Á því hyggst Tim Davie taka með af­drátt­ar­laus­um hætti, bæði á miðlum BBC og fé­lags­miðlum. Ekki sé nóg að jafn­vægi sé í skoðunum, frétta­menn BBC eigi ein­fald­lega ekki að vera að flíka skoðunum sín­um. Nýj­ar regl­ur yrðu sett­ar um notk­un þeirra á fé­lags­miðlum og þeim yrði fram­fylgt af hörku.

„Ef menn vilja vera skoðana­rík­ir pistla­höf­und­ar eða fylkja sér um málstaði á fé­lags­miðlum, þá er það gott og gilt. En þá ættu menn ekki að vinna fyr­ir BBC,“ sagði Tim Davie, hinn nýi út­varps­stjóri BBC.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert