Yfir 90 þúsund ný smit á sólarhring

AFP

Nýtt met var slegið á Indlandi síðasta sólarhringinn er staðfest voru rúmlega 91 þúsund ný kórónuveirusmit á aðeins 24 klukkustundum. Aldrei hafa jafn mörg smit verið staðfest í einu landi á svo skömmum tíma.

Smitum hefur fjölgað hratt á Indlandi að undanförnu og er Indland nú það land í heiminum sem er með næstflest kórónuveirusmit á eftir Bandaríkjunum. Vegna fjölgunar smita hafa ríki eins og Frakkland, Ísrael og Ástralía hert ferðatakmarkanir á milli landa.

AFP

Alls hafa rúmlega 4,2 milljónir greinst með kórónuveiruna á Indlandi en í Bandaríkjunum eru smitin alls 6,25 milljónir talsins. Íbúar Indlands eru tæplega 1,4 milljarðar en í Bandaríkjunum eru þeir 328 milljónir. Í heiminum hafa alls verið staðfest tæplega 27 milljónir COVID-19-smita og yfir 880 þúsund hafa látist af völdum veirunnar. Flestir hafa látist í Bandaríkjunum, rúmlega 188 þúsund manns, 126 þúsund eru látnir í Brasilíu og tæplega 71 þúsund eru látnir á Indlandi.

Þrátt fyrir fjölgun smita hafa indversk yfirvöld dregið úr hömlum og meðal annars var járnbrautakerfi höfuðborgarinnar Nýju-Delí opnað að nýju í dag eftir að hafa verið lokað í fimm mánuði. Hið sama á við um 12 aðrar borgir í landinu. Harðar sóttvarnareglur gilda um borð, allir verða að vera með grímur, gæta fjarlægðar og líkamshiti farþega er mældur.

Alls voru staðfest tæplega 16 þúsund ný COVID-19-smit í Frakklandi um helgina og þau voru tæplega 9 þúsund á föstudag. Í gær voru staðfest tæplega 3 þúsund ný smit í Bretlandi og samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum eru flest smitin meðal ungs fólks. Mikilvægt sé að smit berist ekki frá ungu fólki til eldra fólks til að forðast að sagan frá því í vetur endurtaki sig. 

AFP

Í Frakklandi hafa sóttvarnareglur verið hertar í borgum eins og Lille, Strassborg og Dijon og rauðum svæðum fjölgað.

Í Ísrael var tekin ákvörðun um að loka 40 borgum og bæjum að næturlagi og menntastofnanir verða lokaðar frá og með deginum í dag. Jafnframt verða settar hömlur á samkomuhald. 

Á Spáni er verið að reyna að hefja skólastarf að nýju en margir foreldrar neita að senda börn sín í skóla þrátt fyrir hótanir yfirvalda um refsiaðgerðir ef börn mæta ekki til skóla að nýju. Nýjum smitum fjölgar hratt í landinu og óttast margir foreldrar um börn sín ef þau mæta í skóla þar sem nálægðin er mikil. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert