Aðeins sex mega koma saman á Englandi

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er sagður ætla að ávarpa þjóð …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er sagður ætla að ávarpa þjóð sína á morgun. AFP

Miðað verður við að einungis sex megi koma saman á Englandi frá og með 14. september næstkomandi. Þetta mun þó ekki gilda um skólastarf, vinnustaði, útfarir eða brúðkaup þar sem sérstaklega er gætt að sóttvörnum.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, mun veita nánari upplýsingar um þessar nýju takmarkanir á blaðamannafundi á morgun. BBC greinir frá.

Tilfellum kórónuveirunnar hefur fjölgað hratt síðustu daga í Bretlandi og hafa um 2.500 ný smit greinst það sem af er degi. Síðan á sunnudag hafa rúmlega 8.000 greinst í Bretlandi.

Hvað varðar heimastjórnir í Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi þá hafa þær heimild til þess að ákvarða eigin sóttvarnaráðstafanir. Enn sem komið er gildir nýja samkomubannið því aðeins á Englandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert