Sikileyskur mafíuforingi, sem afplánar nú lífstíðardóm á Ítalíu, beit fingur af fangaverði og gleypti hann eftir að til átaka kom í Rebibbia-fangelsinu í Róm.
Ítalska dagblaðið Il Messagero greinir frá þessu, en þar kemur fram að atvikið hafi átt sér stað í júní. Þar segir ennfremur að hinn sextugi Giuseppe Fanara hafi ráðist á sjö fangaverði þegar þeir komu til að skoða klefann hans.
Fanara, sem er liðsmaður Cosa Nostra-glæpagengisins, hefur þegar setið í fangelsi í um áratug. Hann sætir sérstöku eftirliti í fangelsinu sem á við mafíuforingja, en tilgangurinn er að koma alfarið í veg fyrir að þeir geti stýrt sínum samtökum á meðan þeir sitja á bak við lás og slá.
Il Messagero segir í frétt sinni að Fanara hafi bitið litla fingur af hægri hendi fangavarðarins. Fingurinn var hvergi sjáanlegur eftir árásina og ákæruvaldið í Róm gekk út frá því að Fanara hefði gleypt puttann.
Fanara gerði síðan árás á sex aðra fangaverði og notaði meðal annars sóp sem barefli. Dagblaðið segir að hann hafi m.a. hótað að skera mennina á háls.
Eftir þetta atvik var Fanara fluttur í Sassari-fangelsið þar sem öryggisgæsla er enn meiri. Hann hefur verið ákærður fyrir líkamsárás og fyrir að reyna að komast hjá handtöku.
AFP-fréttastofan greinir frá því að fyrr á þessu ári hafi stjórnvöld á Ítalíu ákveðið að sleppa gömlum og veikburða mafíuforingjum. Þeirra á meðal eru liðsmenn sem tilheyra Cosa Nostra-samtökunum.
Sú ákvörðun var aftur á móti harðlega gagnrýnd sem leiddi til þess að ítalska dómsmálaráðuneytið ákvað að endurskoða hana.
Fanara hlaut lífstíðardóm árið 2009 í kjölfar aðgerða lögreglu gegn mafíustarfsemi í Agrigent-héraðinu á Sikiley árið 2006. Hann var m.a. dæmdur fyrir að myrða tvo bræður, sem neituðu að verða við kröfum mafíunnar, og fyrir að hafa myrt þrjá aðra menn í gengjastríði á seinni hluta tíunda áratugarins.