Beit fingur af fangaverði og gleypti hann

Fanara var handtekinn í kjölfar lögregluaðgerða gegn mafíunni á Sikiley …
Fanara var handtekinn í kjölfar lögregluaðgerða gegn mafíunni á Sikiley fyrir tæpum 15 árum. Myndin er úr safni. AFP

Siki­leysk­ur mafíu­for­ingi, sem afplán­ar nú lífstíðardóm á Ítal­íu, beit fing­ur af fanga­verði og gleypti hann eft­ir að til átaka kom í Rebibb­ia-fang­els­inu í Róm. 

Ítalska dag­blaðið Il Messa­gero grein­ir frá þessu, en þar kem­ur fram að at­vikið hafi átt sér stað í júní. Þar seg­ir enn­frem­ur að hinn sex­tugi Giu­seppe Fan­ara hafi ráðist á sjö fanga­verði þegar þeir komu til að skoða klef­ann hans.

Fan­ara, sem er liðsmaður Cosa Nostra-glæpa­geng­is­ins, hef­ur þegar setið í fang­elsi í um ára­tug. Hann sæt­ir sér­stöku eft­ir­liti í fang­els­inu sem á við mafíu­for­ingja, en til­gang­ur­inn er að koma al­farið í veg fyr­ir að þeir geti stýrt sín­um sam­tök­um á meðan þeir sitja á bak við lás og slá. 

Il Messa­gero seg­ir í frétt sinni að Fan­ara hafi bitið litla fing­ur af hægri hendi fanga­varðar­ins. Fing­ur­inn var hvergi sjá­an­leg­ur eft­ir árás­ina og ákæru­valdið í Róm gekk út frá því að Fan­ara hefði gleypt putt­ann.

Fan­ara gerði síðan árás á sex aðra fanga­verði og notaði meðal ann­ars sóp sem bar­efli. Dag­blaðið seg­ir að hann hafi m.a. hótað að skera menn­ina á háls. 

Eft­ir þetta at­vik var Fan­ara flutt­ur í Sass­ari-fang­elsið þar sem ör­ygg­is­gæsla er enn meiri. Hann hef­ur verið ákærður fyr­ir lík­ams­árás og fyr­ir að reyna að kom­ast hjá hand­töku. 

Um­deild ákvörðun

AFP-frétta­stof­an grein­ir frá því að fyrr á þessu ári hafi stjórn­völd á Ítal­íu ákveðið að sleppa göml­um og veik­b­urða mafíu­for­ingj­um. Þeirra á meðal eru liðsmenn sem til­heyra Cosa Nostra-sam­tök­un­um. 

Sú ákvörðun var aft­ur á móti harðlega gagn­rýnd sem leiddi til þess að ít­alska dóms­málaráðuneytið ákvað að end­ur­skoða hana. 

Fan­ara hlaut lífstíðardóm árið 2009 í kjöl­far aðgerða lög­reglu gegn mafíu­starf­semi í Agrig­ent-héraðinu á Sikiley árið 2006. Hann var m.a. dæmd­ur fyr­ir að myrða tvo bræður, sem neituðu að verða við kröf­um mafíunn­ar, og fyr­ir að hafa myrt þrjá aðra menn í gengja­stríði á seinni hluta tí­unda ára­tug­ar­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert