Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, sagði í dag að þjóðfélagsskipulag Rússlands myndi falla ef hann sjálfur stigi til hliðar í umfangsmiklum mótmælum í Hvíta-Rússlandi.
„Veistu hvaða niðurstöðu við höfum komist að um rússneskt stjórnkerfi og stjórnvöld? Ef Hvíta-Rússland fellur verður Rússland næst,“ sagði forsetinn við rússneska fjölmiðla.
Mótmælendur hafa komið saman, þá helst á sunnudögum, frá því að Lúkasjenkó var endurkjörinn í ágúst. Mótmælendur og stjórnarandstaðan í Hvíta-Rússlandi hafa sakað forsetann um umfangsmikið kosningasvindl og krefjast afsagnar hans.
Fjöldi áberandi stjórnarandstæðinga hefur flúið landið, en mótmælendur og mannréttindafrömuðir hafa sakað lögreglu um að beita friðsama mótmælendur ítrekað ofbeldi.
Fram kemur á BBC að Lúkasjenkó hafi í dag viðurkennt að ef til vill hafi hann verið við stjórnvölinn of lengi. Hann sé þó ekki á förum undir þessum kringumstæðum.