Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, fordæmir aðgerðir hvítrússneskra stjórnvalda gegn stjórnarandstæðingnum Mariu Kolesnikovu, en greint var frá því fyrr í dag að stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi hefðu reynt að flytja hana úr landi til Úkraínu. Kolesnikova brást ókvæða við, reif vegabréf sitt fyrir framan landamæraverði og sagðist ekki ætla að yfirgefa Hvíta-Rússland. Hún var þá handtekin.
Pompeo sagði í yfirlýsingu að bandarísk stjórnvöld hefðu í hyggju að herða þvingunaraðgerðir sínar gegn þeim sem bera ábyrgð á mannréttindabrotum gegn friðsömum mótmælendum í Hvíta-Rússlandi.
Hann sagði einnig að bandarísk stjórnvöld væru mjög uggandi yfir framferði hvítrússneskra stjórnvalda og fór fögrum orðum um Kolesnikovu og hugrekki hennar.
Mótmæli geisa enn víða um Hvíta-Rússland eftir að Alexander Lúkasjenkó, einræðisherra landsins, náði endurkjöri í ágúst, í kosningum sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði að hefðu verið „vandkvæðum bundnar“.