Alain Cocq, dauðvona maður sem á dögunum tilkynnti að hann ætlaði að streyma eigin dánarstund á Facebook, hefur þegið líknandi meðferð á sjúkrahúsi í borginni Dijon í Frakklandi. Cocq hugðist hætta að borða og drekka til þess að geta streymt frá eigin dánarstund á Facebook. Forsvarsmenn Facebook tilkynntu síðar að útsending yrði stöðvuð ef af henni yrði.
Fyrr í sumar hafði Cocq samband við Emmanuel Macron Frakklandsdorseta og fór þess á leit við hann að hann endurskoðaði lög um dánaraðstoð. Macron varð ekki við ósk hans og sagði í bréfi sem hann sendi Cocq að hann væri ekki yfir franskan lagabókstaf hafinn, hann gæti ekki bara breytt lögum sisvona, áður en hann óskaði Cocq velfarnaðar.
Talsmaður Cocqs, lögfræðingurinn Sophie Medjeberg, sagði í samtali við AFP að eina ósk Cocqs væri að dánarstund hans yrði sársaukalaus.