Handtekin á landamærunum

Maria Kolesnikova.
Maria Kolesnikova. AFP

Maria Kolesnikova, sem hefur verið framarlega í stjórnarandstöðunni í Hvíta-Rússlandi, var handtekin þar sem hún reyndi að komast yfir landamæri Úkraínu. 

Talsmaður landamæravörslu Hvíta-Rússlands greinir frá þessu en Kolesnikova var handtekin er hún reyndi að komast yfir landamærin í nótt ásamt tveimur öðrum úr Samhæfingarráðinu, samtökum stjórnarandstæðinga.

Auk hennar voru Anton Rodnenkov og Ivan Kravtsov með í för en þeim tveimur tókst að komast yfir landamærin. Það hefur verið staðfest af sendiráði Úkraínu í Minsk. Þremenningarnir hurfu í gær. Kolesnikova er í haldi í tengslum við rannsókn málsins samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum.

Samhæfingarráðið hefur verið sakað um að hafa ætlað að ræna völdum í Hvíta-Rússlandi en félagar þess segja að því hafi verið komið á til að tryggja friðsamlega breytingu á stjórn landsins. Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, var endurkjörinn forseti landsins í síðasta mánuði og segir yfirkjörstjórn að hann hafi fengið 80% atkvæða. Stjórnarandstaðan mótmælir því og segir að helsti andstæðingur hans, Svetlana Tikhanovskaja, hafi farið með sigur af hólmi í kosningunum. 

Stjórnvöld í Bretlandi og Þýskalandi kröfðust þess að fá upplýsingar um hvarf Kolesnikova í gær og bandamenn hennar sögðu að henni hafi verið rænt úti á götu af svartklæddum mönnum.

Kolesnikova er sú eina af þremur konum sem voru framvarðarsveit framboðs Tikhanovskaja sem er enn í Hvíta-Rússlandi. Tikhanovskaja er í Litháen á meðan Veronika Tsepkalo er í Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka