Jarðskjálfti af stærðinni 3,3 varð á Englandi um klukkan 9.45 í morgun að staðartíma, eða klukkan 8.45 að íslenskum tíma.
Í umfjöllun BBC er hermt eftir Carly Jan Smith nokkurri, sem búsett er í Dunstable, að skjálftinn hafi verið „mjög sterkur“ og hafi varað í um tvær sekúndur. Skjálftinn hafi skekið heimili hennar.
Breska jarðvísindastofnunin segir skjálftann hafa átt upptök sín norður af bænum Leighton Buzzard í Bedfordskíri.
Dr. Richard Luckett, vísindamaður við stofnunina, segir skjálftann mjög smáan á heimsvísu, en nokkuð stóran fyrir Bretland.
„Við fáum um tvo svona á hverju ári, sem er sjaldgæft fyrir Bretland,“ segir Luckett.
Karen Curons, 56 ára bæjarfulltrúi í Leighton Buzzard, segist hafa fundið fyrir skjálftanum.
„Við höfum verið í Leighton Buzzard í 34 ár og ég hef aldrei fundið neitt þessu líkt.“
Lögreglan í Bedfordskíri segir að ekki sé enn vitað til að nokkur hafi slasast eða að skemmdir hafi orðið á byggingum.