Yfirvöld í Kaliforníuríki standa nú í ströngu við að bjarga tugum fjallgöngumanna frá skógareldunum sem geisað hafa síðustu vikur. Loftbrú var mynduð með þyrlu til þess að koma fólkinu í skjól.
Hitamet hafa fallið í Kaliforníu síðustu daga og er áætlað að um 14 þúsund slökkviliðsmenn glími við eldana sem upp hafa komið á 25 mismunandi stöðum víðs vegar um ríkið. BBC greinir frá.
Fjallgöngufólkið sem bjargað var í dag hafði setið fast í tvær nætur og komst hvergi en horfið hafði verið frá fyrri björgunaraðgerðum vegna reykmengunar. Snemma í dag náðist svo að lenda þyrlu í námunda við fjallgöngufólkið og báru aðgerðirnar þá fyrst árangur.
Í skógareldunum sem nú geisa hefur svæði á stærð við Delawareríki brunnið líkt og sagt er í frétt BBC en það svæði er litlu minna en allt flatarmál Vatnajökuls.
Haft er eftir Lynne Tolmachoff, talsmanni Skógareldvarna Kaliforníuríkis, að stofnunin hafi miklar áhyggjur af september- og októbermánuði þegar vanalega er mjög hlýtt, þurrt og vindasamt. Kjöraðstæður fyrir skógarelda.
Frétt BBC um málið.