Tæplega 10.000 tilfelli kórónuveirusmita voru staðfest í Frakklandi í gær. Um er að ræða mesta fjölda smita sem hefur greinst í Frakklandi síðan kórónuveiran fór að láta á sér bera.
Heilbrigðisyfirvöld greindu frá 9.843 nýjum staðfestum tilfellum COVID-19 í dag. Fyrra smitmet var 900 smitum lægra. Nú skoða frönsk stjórnvöld hvort nauðsynlegt sé að herða enn frekar á sóttvarnarástöfunum þar í landi í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu faraldursins.
Sjöundi hæsti fjöldi greindra tilfella er í Frakklandi og hafa fleiri en 30.800 fallið frá vegna veirunnar þar.
Fjöldi þeirra sem þurfa á gjörgæslumeðferð að halda hefur einnig farið vaxandi á síðustu dögum. Þrátt fyrir að færri liggi á spítala nú en í apríl hafa heilbrigðisyfirvöld áhyggjur af þróun mála.
Á morgun funda stjórnvöld um stöðuna og mögulegar aðgerðir sem gætu orðið harðar. Emmanuel Macron forseti Frakklands segir að fundurinn muni gefa almenningi skýra hugmynd um það sem búast megi við á komandi vikum.
„Við þurfum að vera eins skýr og hægt er. Við þurfum að vera raunsæ án þess að valda hræðslu.“
Önnur evrópsk lönd hafa orðið vör við aukinn fjölda smita undanfarið. Þar má til að mynda nefna Bretland, Ítalíu og Spán. Síðastnefnda landið varð í vikunni fyrsta Evrópusambandsríkið sem náði hálfum milljónum kórónuveirusmita. Þar hefur smitum fjölgað um 100.000 á síðasta mánuði.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur varað við því að faraldurinn gæti ná nýjum hæðum í Evrópu í október og nóvember.