Eldar jafna samfélög við jörðu

Skógareldar hafa jafnað heilu bæjarfélögin við jörðu í vesturhluta Bandaríkjanna. Sex dauðsföll hafa verið staðfest, en yfiröld vestanhafs vara við frekari dauðsföllum.

Fimm bæir í Oregon-ríki hafa orðið fyrir verulegri eyðileggingu vegna eldanna og hafa bæir víða í ríkinu verið rýmdir. Kate Brown, ríkisstjóri Oregon sagði á blaðamannafundi að eldarnir gætu orðið þeir mannskæðustu í sögu ríkisins.

Eldarnir hafa einnig náð til Kaliforníu og Washington-ríkis, þar sem erfiðlega hefur gengið að hefta útbreiðslu eldanna. Miklar hitabylgjur og þurrir vindar hafa verið á svæðinu, sem gera aðstæður sérlega erfiðar.

Barist við elda í Oroville í Kaliforníu.
Barist við elda í Oroville í Kaliforníu. AFP

Meðal þeirra sem létust í eldunum í gær var eins árs gamalt barn í bæ sunnan Seattle í Washington-ríki. Foreldrar barnsins hlutu alvarleg brunasár.

Íbúar San Francisco vöknuðu við appelsínugulan himin í morgun, þar sem reykur frá eldunum varpaði skugga á borgina. Brunayfirvöld í borginni hafa biðlað til fólks að halda sig innan dyra.

Tugir þúsunda hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna eldanna. Meira en 14 þúsund slökkviliðsmenn reyna nú að ráða niðurlögum eldanna, sem geysa nú á 28 stöðum á svæðinu.

San Francisco-búar vöknuðu við appelsínugulan himinn.
San Francisco-búar vöknuðu við appelsínugulan himinn. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert