Fyrrum yfirmaður upplýsingadeildar hjá Bandaríska heimavarnaráðuneytinu (DHS) segir að yfirmenn hafi sett á sig pressu til að gera lítið úr ógninni sem stafar af afskiptum Rússa af forsetakosningunum sem fram fara í nóvember. Ástæðan hafi verið sú að það “léti forsetann líta út.”
Í kvörtun Brian Murphy, greinanda hjá heimavarnarráðuneytinu, kemur fram að hann hafi verið lækkaður í tign vegna þess að hann vildi ekki eiga við skýrslur, meðal annars um rússnesk afskipti og hvíta þjóðernishyggju.
Murphy telur að skipanirnar hafi verið ólöglegar, en Hvíta Húsið og heimavarnarráðuneytið hafa neitað ásökunum.
Leyniþjónustustofnanir í Bandaríkjunum komust að þeirri niðurstöðu að Rússar hafi haft afskipti af forsetakosningunum árið 2016. Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur hafnað ásökunum um að Rússar hafi haft áhrif á sigur sinn í kosningunum, og hefur jafnvel dregið niðurstöður eigin stofnanna í efa.
Kvörtun Murphys var birt af upplýsinganefnd neðri deildar þingsins, sem stjórnað er af Demókrötum, en Murphy hefur verið beðinn um að ávarpa nefndina síðar í mánuðinum.
Í kvörtuninni kemur fram að yfirmenn ráðuneytisins hafi ítrekað beitt sér fyrir því að ritskoða og eiga við upplýsingar sem tengdust rannsókn á afskiptum Rússa af bandarískum stjórnmálum.
Í maí hafi Murphy verið beðinn um að hætta upplýsingasöfnun um ógnina sem stafar af Rússum og einbeita sér frekar að mögulegum afskiptum Írans og Kína. Þá var hann beðinn um að bíða með birtingu skýrslu sem gæti látið forsetann líta illa út.
Þá hafi Murphy verið beðinn um að ýkja fjölda innflytjenda með tengsl við hryðjuverkasamtök og að breyta áhættumati fyrir öfga-vinstri samtök á borð við Antifa, svo matið væri í meira samræmi við ummæli forsetans.