Alþjóðaráð Rauða krossins segir að mannúðarstarf samtakanna sé í mikilli hættu eftir að eldur kom upp á hafnarsvæði Beirút, höfuðborgar Líbanons, í dag. Vöruskemma þar sem Rauði krossinn geymdi mat sem nota átti til mataraðstoðar brann til grunna í eldsvoðanum. Aðeins er mánuður síðan gríðarstór sprenging á hafnarsvæðinu varð 190 manns að bana og særði þúsundir.
„Umfang eyðileggingarinnar er enn óvitað. Hætta er á að mannúðaraðstoð Rauða krossins í Beirút raskist umtalsvert,“ er haft eftir svæðisstjóra alþjóðaráðs samtakanna.
Michel Aoun, forseti Líbanons, segir að upptök eldsins geti hafa verið skemmdarverk, galli í einhverju tæknikerfi eða vanræksla. Komi í ljós að upptök eldsins hafi verið af mannavöldum verði hinir seku látnir sæta ábyrgð.
Mikill ótti greip um sig í Beirút í dag þegar eldurinn kom upp. Svartan reyk lagði yfir hluta borgarinnar og óttuðust margir að álíka harmleikur og varð fyrir mánuði væri að endurtaka sig. Sprengingin í ágúst var mannaskæðasti atburður á friðartíma í sögu landsins.