„Ég sé ekki annað en að það sem er í gangi hér séu hálfgildings pólitísk sýndarréttarhöld.“
Þetta segir Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, í samtali við mbl.is.
Kristinn er staddur í Lundúnum, þar sem réttarhöld um framsal Julian Assange til Bandaríkjanna fara fram. Réttarhöldin hófust að nýju á mánudag, en þar verður úrskurðað hvort Assange verði framseldur til Bandaríkjanna, þar sem hann á yfir höfði sér allt að 175 ára langa fangelsisvist fyrir njósnir.
Hlé voru gerð á réttarhöldunum fyrr í dag vegna gruns á kórónuveirusmiti hjá maka lögmanns Bandaríkjamanna í málinu. Beðið er niðurstaða úr prófi svo hægt sé að halda réttarhöldunum áfram.
„Það sem er undir er framtíð blaðamennskunnar,“ segir Kristinn. Assange sæti ákærum fyrir „það sem blaðamenn gera á degi hverjum.” Hann segir að gríðarlega mikið sé undir, en að „þetta sé pólitískt mál frá A til Ö.“
Kristinn segir að framvinda réttarhaldanna hafi verið einkennileg síðan þau byrjuðu á mánudaginn. Erfilega hafi gengið að hafa samband við vitni í málinu í gegnum fjarbúnað, en í réttarhöldunum koma fram ýmsir sérfræðingar meðal annars á sviði fjölmiðlafræði, blaðamennsku og stjórnmála.
Þá hafi dómari málsins ákveðið að draga til baka streymisaðgang til um fjörtíu aðila á morgni mánudags, þar á meðal Blaðamanna án landamæra og Amnesty international, sem höfðu beðið um streymisaðgang sem eftirlitsaðilar í málinu. Þó hafi einhverjir blaðamenn haft streymisaðgang að réttarhöldunum.
Engu að síður telur Kristinn að réttarhöldin séu “langt frá því að vera opin réttarhöld.”
Þá segir Kristinn að ný ákæra hafi verið birt gegn Assange í aðdraganda réttarhaldanna. Upphafleg ákæra hafi verið birt þegar Assange var handtekinn í sendiráði Ekvadors síðasta vor og að ákæruskjalið hafi verið uppfært nokkrum vikum síðar. Nýtt ákæruskjal hafi síðan verið lagt fram nokkrum vikum áður en réttarhöld hófust, sem innihéldu nýja ákæruliði. Í kjölfarið var Assange sleppt úr haldi og handtekinn á ný.
Lögfræðingar Assange óskaði eftir því að réttarhöldunum yrði frestað vegna þeirru nýju ákæruliða, en þeirri beðni var hafnað.
Kristinn segist ekki hafa trú á því að úrskurðað verði í málinu á grundvelli laga og réttlætis. “Enda er þetta pólitískt mál og eins og ég hef sagt ítrekað, þá er Julian Assange pólitískur fangi, líklega sá eini í Bretlandi og sá eini í Vestur-Evrópu.
Samtökin Blaðamenn á landamæra hafa safnað undirskriftum gegn því að Assange verði framseldur til Bandaríkjanna. Meira en 80 þúsund manns hafa skrifað undir.
Fulltrúar samtakanna hafa reynt að koma undirskriftarlistanum til skila, en að stjórnvöld hafi ekki enn tekið á móti listanum. Þar á meðal reyndu fulltrúar að afhenda forsætisráðherranum listann við Downing-stræti 10, en höfðu ekki erindi sem erfiði.
Mótmælendur komu saman fyrir utan Old Bailey-dómshúsið á mánudag og heimtuðu að Assange yrði ekki framseldur til Bandaríkjanna.