Saksóknarar í París Frakklandi hafa hafið rannsókn á meintum kynferðisbrotum u.þ.b. 20 listskautaþjálfara undanfarna áratugi eftir að þeim bárust gögn frá franska íþróttaráðuneytinu.
Mun rannsóknin einnig miða að því að finna fleiri fórnarlömb og meinta afbrotamenn, en nokkur fjöldi listskautara hefur stigið fram í kjölfar ásakana ólympíumethafans Sarah Abitbol.
Í bók sinni sem birt var í janúar síðastliðnum sakar Abitbol fyrrverandi þjálfara sinn, Gilles Beyer, um að hafa nauðgað henni á árunum 1990 til 1992 þegar hún var á aldrinum 15 til 17 ára, en Beyer var látinn hætta sem þjálfari franska skautalandsliðsins í kjölfar rannsóknar árið 2000 en fékk að halda áfram að þjálfa hjá frönskum félögum.
Forseti frönsku skautasamtakanna til 20 ára, Didier Gailhaguet, neyddist til að segja af sér í kjölfar útgáfu bókar Abitbol, þrátt fyrir fullyrðingar hans þess efnis að hann hafi ekki haft vitneskju um neins konar misnotkun innan skautaheimsins.
Íþróttamálaráðuneytið tilkynnti hins vegar í síðasta mánuði að rannsókn þess og viðtöl við tugi manns hafi leitt í ljós upplýsingar um meinta misnotkun a.m.k. 21 skautaþjálfara. Rúmlega helmingur þeirra var ásakaður um kynferðislega áreitni og aðrir um líkamlegt og andlegt ofbeldi. Eins og áður segir er málið nú komið á borð franskra saksóknara.