Segist engu hafa logið

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á blaðamannafundi Hvíta hússins í dag að hann hefði ekki logið að bandarísku þjóðinni um skaðsemi kórónuveirunnar. Í nýrri bók eftir blaðamanninn Bob Woodward kemur fram að Donald Trump hafi sagt í desember að kórónuveiran væri „banvænt dót,“ áður en fyrsta dauðsfallið af völdum kórónuveirunnar í Bandaríkjunum var staðfest.

Sagði veiruna hættulausa 

Bob Woodward tók 18 viðtöl við Trump frá því í desember í fyrra þar til í júlí á þessu ári við gerð bókarinnar Rage sem væntanleg er 15. september. Hann tók upp viðtöl sín og á upptökunum kemur fram að Donald Trump hafi vitað að kórónuveiran væri banvæn. Síðar er hann sagður hafa gert lítið úr veirunni og sagt hana hættulausa – bara ens og hver önnur inflúensa. Greint var frá þessu á mbl.is í gær.

Trump var spurður að því á blaðamannfundi í dag af hverju hann hafi logið að bandarísku þjóðinni. Trump brást ókvæða við og sagði „Ég laug engu.“

Gríðarleg óánægja er meðal margra Bandaríkjamanna sem segja Trump ekki hafa brugðist nógu vel við heimsfaraldrinum og hefur mótframbjóðandi Trump í komandi forsetakosningum, Joe Biden, gert sér mat úr þeirri óánægju.

„Mér finnst við hafa staðið okkur vel,“ sagði Trump við blaðamenn í dag. „Ég vildi ekki fara að hoppa upp og niður og öskra „Dauði, dauði!““

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert