Tekist á um framsal Assange til Bandaríkjanna

Réttarhöld yfir Julian Assange standa nú yfir í Lundúnum þar …
Réttarhöld yfir Julian Assange standa nú yfir í Lundúnum þar sem úrskurðað verður um fyrirhugað framsal hans til Bandaríkjanna þar sem hann er ákærður fyrir njósnir. AFP

Réttarhöld yfir Julian Assange, stofnanda Wikileaks, hófust að nýju á mánudag og standa nú yfir í Lundúnum þar sem úrskurðað verður hvort Assange verði framseldur til Bandaríkjanna, þar sem hann á yfir höfði sér allt að 175 ára langa fangelsisvist fyrir njósnir.

Assange birti leynilegar upplýsingar árið 2010 um stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Írak og Afganistan. Lögmenn hans segja ásakanir bandarískra stjórnvalda vera aðför að tjáningar- og fjölmiðlafrelsi.

Assange hefur verið í fangelsi í nágrenni Lundúna síðan í fyrra en þar áður hafði hann búið í sendiráði Ekvadors í Bretlandi síðan 2013 þar sem honum var veitt pólitískt hæli. Þegar Assange var spurður hvort hann samþykkti að vera framseldur til Bandaríkjanna við upphaf réttarhaldanna á mánudag svaraði hann því neitandi.

Réttarhöldin í Bretlandi snúast því ekki um hvort Assange sé sekur um eitthvað glæpsamlegt eða ekki, heldur einungis um það hvort breskum stjórnvöldum sé heimilt að framselja hann til Bandaríkjanna á grundvelli samnings sem ríkin gerðu á milli sín árið 2003.

Assange á svölum ekvadorska sendiráðsins í Lundúnum þar sem hann …
Assange á svölum ekvadorska sendiráðsins í Lundúnum þar sem hann bjó í á sjöunda ár. AFP

Getur áfrýjað til MDE

Fari svo að Assange tapi og ákveðið verði að framselja hann mun hann eiga þess kost að áfrýja málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu. MDE hefur fimm sinnis lagt blessun sína yfir framsal fólks frá Bretlandi til Bandaríkjanna, þar á meðal framsölu múslimaklerksins Abus Hamza al-Masri, sem ákærður var í Bandaríkjunum fyrir aðild sína að hryðjuverkastarfsemi.

Ósanngjörn réttarhöld

Réttarhöldum vegna brota á njósnalöggjöf Bandaríkjanna (e. U.S. Espionage Act) er þannig háttað að sakborningur í málinu fær ekki tækifæri til þess að útskýra ástæðurnar sem liggja að baki glæpum hans heldur einungis hvort viðkomandi hafi framið glæpinn eða ekki. Þetta hefur mikið verið gagnrýnt og segja lögmenn Assange að þetta sé ekki dæmi um sanngjörn réttarhöld.

Bandarísk stjórnvöld saka Assange um að hafa brotið gegn njósnalöggjöf þar í landi ásamt öðrum ásökunum. Assange er til að mynda ásakaður um að hafa hvatt Chelsea Manning til þess að brjótast inn í tölvukerfi stjórnvalda og leka þaðan herðnaðarlegum trúnaðarupplýsingum.

„Þetta eru eðlilegar kærur sem hver einstaklingur, blaðamaður eður ei, getur átt yfir höfði sér fyrir það eitt að reyna að brjótast inn í tölvukerfi stjórnvalda. Hver sá sem gerir slíkt eða hvetur annan til slíks gerist sekur um netglæpi,“ er haft eftir James Lewis, lögmanni bandarískra stjórnvalda í máli Assange.

Chelsea Manning.
Chelsea Manning. AFP

Trump slær nýjan tón

Árið 2013, í tíð Baracks Obama á forsetastóli, kom það til greina að Bandaríkin höfðuðu mál á hendur Assange. Það hafi hins vegar ekki verið gert til þess að setja ekki fordæmi fyrir því að sakfella blaðamenn sem leka trúnaðarupplýsingum frá bandarískum stjórnvöldum. Þegar Donald Trump tók við Hvíta húsinu árið 2017 kvað hins vegar við annan tón og er þess nú krafist af breskum stjórnvöldum að Assange verði framseldur.

„Trump Bandaríkjaforseti markaði nýja stefnu bandarískra stjórnvalda varðandi tjáningarfrelsi og gætir nú nýrrar andstöðu stjórnvalda gegn fjölmiðlum og í raun hefur verið lýst yfir stríði við rannsóknarblaðamennsku,“ sagði Edward Fitzgerald við Reuters í febrúar, þegar málið var fyrst tekið fyrir í febrúar. Það frestaðist svo þar til nú vegna kórónuveirunnar.

„Special relationship“

Lögspekingar telja ansi miklar líkur á að Assange verði sakfelldur fyrir bandarískum dómstólum fyrir glæpi sína. Tvísýnt er þó um hvort Bandaríkjamönnum takist að fá Assange framseldan en ljóst þykir að það muni slettast aðeins upp á „hið sérstaka samband“ Bandaríkjamanna og Breta ef svo verður ekki.

Þá sagði Nick Vamos, fyrrverandi sérfræðingur bresku krúnunnar í málum tengdum framsali, við Washington Post í febrúar að „vegna þess gríðarmikla trausts sem ríkir á milli vinaþjóðanna tveggja, Bandaríkjanna og Bretlands, verður erfitt fyrir Assange að sannfæra breska dómstóla um að bandarískt dómskerfi sé ósanngjarnt, sama hversu pólitískt málið kann að vera“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka