Stjórnvöld í Persaflóaríkinu Barein og Ísrael hafa komist að samkomulagi um að hefja stjórnmálasamband milli ríkjanna. Með samkomulaginu mun Barein viðurkenna sjálfstæði Ísraelsríkis og verður þar með fjórða Arabaríkið til þess. Egyptaland og Jórdanía viðurkenna þegar sjálfstæði Ísraelsríkis og í síðasta mánuði var tilkynnt að Sameinuðu arabísku furstadæmin myndu gera slíkt hið sama með því skilyrði að Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, léti af fyrirætlunum sínum um að innlima hluta Vesturbakkans eins og hann hafði lofað fyrir kosningar.
Um árabil hafa flest ríki Arababandalagsins sniðgengið Ísraelsríki og sagt að stjórnmálasambandi verði ekki komið á nema deilan milli Ísraels og Palestínu verði leyst. Í frétt New York Times segir að sinnaskiptin séu til marks um breytt valdajafnvægi í Mið-Austurlöndum þar sem Arabaþjóðir færi sig nær Ísraelsmönnum og einangri þannig Palestínumenn.
Í sameiginlegri yfirlýsingu sem Benjamín Netanjahú, Hamad bin Isa Al Khalifa, konungur Barein, og Donald Trump Bandaríkjaforseti birtu í dag segir að samkomulagið sé sögulegt skref í átt að friði í Mið-Austurlöndum. „Að opna á samtal og samskipti milli þessara tveggja kviku samfélaga og þróuðu hagkerfa mun leiða til jákvæðra breytinga í Mið-Austurlöndum og auka stöðugleika, öryggi og velmegun á svæðinu,“ segir enn fremur.
Friðarsamningur ríkjanna tveggja verður undirritaður í Hvíta húsinu þriðjudaginn næstkomandi, 15. september en þangað hefur konunginum af Barein og forsætisráðherra Ísraels verið boðið.