Ekki satt að „öfgamenn“ hafi kveikt skógarelda

Brunninn bíll í Gates í Oregon í Bandaríkjunum.
Brunninn bíll í Gates í Oregon í Bandaríkjunum. AFP

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur fordæmt fullyrðingar sem settar hafa verið fram þess efnis að „öfgamenn“ hafi vísvitandi komið skógareldum af stað í Oregon-ríki í Bandaríkjunum.

Oregon er eitt nokkurra ríkja á vesturströnd Bandaríkjanna þar sem miklir skógareldar hafa geisað undanfarna daga, en tugir hafa látið lífið og tugir þúsunda þurft að yfirgefa heimili sín. Í Oregon hafa yfir 400.000 hektarar lands brunnið og yfir 1,2 milljónir hektara í Kaliforníu.

Hópur samsæriskenningasamiða á netinu hefur reynt að tengja eldsvoðann við samtökin Antifa, sem eru andsnúin Donald Trump Bandaríkjaforseta. „Alríkislögreglan í Portland og lögreglan á svæðinu hafa fengið tilkynningar um að öfgamenn séu ábyrgir fyrir skógareldunum í Oregon.

Við höfum rannsakað margar slíkar ábendingar og komist að raun um það að þær eru ósannar,“ segir í yfirlýsingu frá FBI. Þá segir að samsæriskenningar og falsfréttir séu til þess fallnar að eyða tíma og fjármunum lögreglunnar, sem betur gæti nýst til að reyna að hafa stjórn á eldinum.

Búa sig undir fleiri dauðsföll

Skógareldarnir á vesturströnd Bandaríkjanna eru þeir verstu í áraraðir og slökkviliðsmenn óttast að þeir geti staðið fram í nóvember. „Við erum að búa okkur undir fjölda dauðsfalla, miðað við þær upplýsingar sem við höfum í dag,“ segir Andrew Phelps, yfirmaður almannavarna í Ohio.

Sviðin jörð í Molalla í Oregon-ríki. Þar hafa skógareldar geisað …
Sviðin jörð í Molalla í Oregon-ríki. Þar hafa skógareldar geisað síðustu daga. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert