Kim sagði Trump frá morðinu á Jang

Kim Jong Un.
Kim Jong Un. AFP

„Kim seg­ir mér allt. Sagði mér allt,“ sagði Don­ald Trump, for­seti Banda­ríkj­anna, við rann­sókn­ar­blaðamann­inn Bob Woodw­ard, að því er fram kem­ur í bók­inn Rage sem er vænt­an­leg í versl­an­ir eft­ir helg­ina. 

„Hann drap frænda sinn og kom lík­inu fyr­ir á tröpp­un­um,“ sagði Trump og vísaði til bygg­ing­ar sem notuð er af hátt­sett­um emb­ætt­is­mönn­um í Norður-Kór­eu. „Og höfuðið var höggvið af og komið fyr­ir á bring­unni,“ bætti Trump við.

Um er að ræða Jang Song-Thaek, eig­in­mann föður­syst­ur Kim Jong-Un, sem Kim lét taka af lífi í des­em­ber 2013. Jang var álit­inn næ­stæðsti emb­ætt­ismaður lands­ins þar til í odda skarst með hon­um og Kim Jong-Un. Talið er að þeir hafi deilt um efna­hags­mál.

Yf­ir­völd í Norður-Kór­eu hafa aldrei upp­lýst um hvernig Jang var tek­inn af lífi en yf­ir­leitt hef­ur því verið haldið fram að hann hafi verið skot­inn til bana.

Vitn­is­b­urður Trumps, sem tal­inn er eiga að sýna náið sam­band leiðtog­anna tveggja, er sá fyrsti sem kem­ur frá hátt­sett­um ein­stak­lingi um aðJang hafi verið af­höfðaður.  

Bob Woodward og Donald Trump.
Bob Woodw­ard og Don­ald Trump. AFP

Und­an­farna daga hafa fjöl­miðlar birt frétt­ir upp úr bók­inni Rage sem er beðið með mik­illi eft­ir­vænt­ingu. Form­leg­ur út­gáfu­dag­ur er 15. sept­em­ber en banda­rísk­ir fjöl­miðlar hafa fengið að birta glefs­ur úr bók­inni und­an­farna daga.

Um­fjöll­un Washingt­on Post um bók­ina en Woodw­ard hef­ur starfað á blaðinu frá ár­inu 1971. Hann er senni­lega þekkt­ast­ur fyr­ir um­fjöll­un sína um Waterga­te-málið en 13 af bók­um hans hafa farið í fyrsta sæti met­sölu­lista vest­an­hafs. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert