Niðurstöður Breta og Kínverja þvert á íslenska rannsókn

AFP

Samkvæmt tveimur nýjum rannsóknum, annars vegar frá Bretlandi og hins vegar frá Kína, gætu mótefni gegn kórónuveirunni dofnað á um mánuði. Þetta er úr taki við niðurstöðu íslenskrar rannsóknar sem gerð var um sama efni.

Í tengslum við þróun bóluefnis hafa niðurstöður úr rannsóknum á mótefnum við kórónuveirunni vakið aukna athygli. Til að mynda greindi breska dagblaðið The Telegraph frá tveimur rannsóknum þess efnis í gær.

Í rannsókn frá Nanjing-háskóla í Kína fylgdust rannsakendur með mótefnasvörun við kórónuveirunni hjá 25 smituðum einstaklingum í eina viku.

Flestir þátttakendur þróuðu með sér mótefni en aðeins lítill hluti þeirra framleiddu nægilegt magn til að vinna gegn veirunni. Um 20% framleiddu ekkert mótefni.

Þá kom fram að þremur til fjórum vikum síðar höfðu mótefnin dofnað töluvert hjá þeim sem höfðu jafnað sig af sjúkdómnum.

Í frétt Telegraph segir að skilningur á hvernig mótefni bregðast við kórónuveirunni skipti sköpum þegar kemur að því að þróa meðferðir við sjúkdómnum, sem og bóluefni.

Ef mótefni dofna með tímanum getur það orðið til þess að sú mótefnasvörun sem bóluefni myndi vekja upp gæti dofnað sömuleiðis.

Í annarri rannsókn frá King’s College London kom fram að 60% af um 100 þátttakendum fengu jákvæða greiningu í mótefnaprófi stuttu eftir að þau greindust með veiruna, en þremur mánuðum seinna greindust aðeins 17% þátttakenda fengu jákvæða greiningu.

Andstæð niðurstaða í íslenskri rannsókn

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir í samtali við mbl.is að ekki vísi allar rannsóknir um mótefni í blóði í sömu áttina. Bendir hann til að mynda á íslenska rannsókn sem birt var í New England Journal of Medicine fyrr í mánuðinum.

Niðurstöður íslensku rannsóknarinnar benda til þess að mótefni í blóði gegn kórónuveirunni dofni ekki fjórum mánuðum eftir greiningu.

Þá ber að nefna að úrtakið í íslensku rannsókninni var margfalt stærra en úrtakið í bresku og kínversku rannsóknunum, eða um 1800 einstaklingar sem höfðu smitast af kórónuveirunni.  Í heildina voru mældir rúmlega 30 þúsund Íslendingar í tengslum við rannsóknina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert