„Þessar aðgerðir eru til þess að við þurfum ekki annað útgöngubann, sagði Boris Johnson á stafrænum blaðamannafundi á miðvikudaginn. „Markmiðið með þessum reglum er að við þurfum ekki að loka landinu á ný.”
Ekki fleiri en sex mega koma saman í Englandi og Skotlandi frá og með mánudeginum. Þetta kemur fram í nýjum sóttvarnareglum sem taka gildi eftir helgi.
Vegna fjölgunar á kórónuveirusmitum í Bretlandi, sérstaklega hjá ungu fólki, samþykktu bresk stjórnvöld nýjar aðgerðir á miðvikudaginn til að sporna við útbreiðslu veirunnar.
Lögreglu verður gert heimilt að sekta og jafnvel handtaka einstaklinga sem verða uppvísir um brot á sóttvarnareglum.
Fjöldatakmörk gilda hins vegar ekki á vinnustöðum og í skólum, né í brúðkaupum og jarðaförum. Þá mega skipulagðar íþróttir, þar sem fleiri en sex koma saman, enn eiga sér stað án áhorfenda.
Í Wales munu aðrar sóttvarnareglur gilda, þar sem ekki fleiri en sex mega koma saman innandyra, en utandyra mega allt að 30 koma saman.
Stjórnvöld í Norður Írlandi hafa tilkynnt að hámarksfjöldi þeirra sem mega koma sama á einum stað verði lækkaður úr 30 niður í 15.
Útskýringar BBC á reglunum má finna hér.
Heilbrigðisráðherra Bretlands, Matt Hancock, hefur sagt að nýju reglurnar verði ekki í gildi lengur en nauðsynlegt er. Reglurnar séu til þess ætlaðar til að sporna við því að grípa þurfi til lokana og útgöngubanns, eins og gert var í apríl.
Nýju reglurnar skylda pöbba og veitingastaði til að taka niður tengiliðaupplýsingar viðskiptavina sinna. Slíkum stöðum er einnig skyld að gæta sóttvarna og gera fólki kleyft að virða fjarlægðarmörk.
Fjarlægðarmörk miðast enn við tvo metra í flestum tilfellum, þótt ekki séu til staðar opinberar reglur þess efnis. Þó hvetja stjórnvöld fólk um að halda tveggja metra fjarlægð, og vera með grímu þar sem það er ekki hægt.
Grímuskylda er þar sem ekki er hægt að halda tveggja metra fjarlægð, til dæmis í verslunum og í almenningssamgöngum.
Einnig stendur til að setja upp sveitir svokallaðra „Covid-gæslumanna” (e. Covid marshals) til að aðstoða löggæsluliða. Um er að ræða óbreytta borgara sem myndu hafa eftirlit með fjarlægðar- og samkomumörkum.
Gæslumennirnir munu, að því er kom fram á blaðamannafundi á miðvikudag, ekki hafa formleg völd til að framfylgja reglum og munu vera á vegum borgar- og bæjarstjórna.
Engu að síður hafa áformin verið gagnrýnd, ekki síst vegna þess hversu óskýrt hlutverk gæslumannanna er.
Enn gilda reglur um ferðalög og sóttkví í Bretlandi þar sem ferðamenn frá tilteknum löndum þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins.
Á morgun verður Portúgal, Ungverjalandi og Frönsku Pólýnesíu bætt við listann, en Íslendingar þurfa ekki að sæta sóttkví við komuna til Bretlands.
Sérstaklega hefur verið biðlað til háskólanema að gæta sóttvarna, en breskir háskólar munu hefja starfsemi sína á næstu vikum. Þótt sex manna reglan gildi ekki í skólum eða vinnustöðum, hafa nemar verið hvattir að mæta ekki í samkomur eða partí sem eru venjulega haldin í upphafi skólaárs.
Víða hafa partí og einkasamkvæmi á heimavistum verið bönnuð til að sporna við hópsmitum.
Flestir breskir háskólar stefna á að kenna samkvæmt svokölluðu blönduðu fyrirkomulagi í haust, þar sem fyrirlestrar fara fram í fjarkennslu, en fámennari tímar verði kenndir í staðnámi.
Stjórnvöld hafa gefið út aðgerðaráætlun fyrir háskóla, þar sem lagt er fram leiðir til að glíma við möguleg hópsmitum innan háskóla. Þar er lagt til að skipti yfir í 100% fjarnám verði síðasta úrræði skólanna og verði aðeins notað í undantekningatilvikum.