Sóttvarnareglur verða hertar í Austurríki vegna fjölgunar kórónuveirusmita í landinu. Meðal annars verður skylda að bera grímu í öllum verslunum og opinberum byggingum frá og með mánudegi. Áður var skylda að bera grímu í matvöruverslunum og almenningssamgöngum en sú skylda hefur verið útvíkkuð enn frekar.
Að sögn Sebastian Kurz, kanslara Austurríkis, er ástandið að versna að nýju og hefur nýjum smitum fjölgað jafnt og þétt undanfarnar vikur. Alls voru skráð 654 ný smit í Austurríki á miðvikudag.
Fjöldatakmarkanir hafa einnig verið hertar og nú mega 1.500 koma saman innandyra en 3 þúsund utandyra. Þetta á við um atburði þar sem fólki er vísað í sæti. Aftur á móti mega mest 50 koma saman innanhúss og 100 utanhúss ef ekki er um sitjandi atburði að ræða.
Matur og drykkur verður að bera fram á borðið til þess að koma í veg fyrir hópamyndun í samkvæmum og á börum.
Kurz varar við því að stjórnvöld muni herða reglurnar enn frekar ef smitum heldur áfram að fjölga. Allt verði gert til að koma í veg fyrir að útgöngubann að mestu verði sett líkt og var í vetur.
Alls hafa tæplega 32 þúsund smit verið skráð í Austurríki frá því faraldurinn braust út. Af þeim eru 750 látnir. Íbúar Austurríkis eru um níu milljónir.