Varð fyrir örvarskoti frumbyggja

Franciscato helgaði líf sitt rannsóknum á frumbyggjum Amazon-regnskógarins.
Franciscato helgaði líf sitt rannsóknum á frumbyggjum Amazon-regnskógarins. AFP

Helsti sérfræðingur Brasilíu í einangruðum ættbálkum Amazon-regnskógarins lést eftir að hafa orðið fyrir örvarskoti þar sem hann nálgaðist svæði ættbálks. 

Rieli Franciscato, 56 ára, lést á miðvikudag í Rondônia-héraði í norðvesturhluta Brasilíu. Hann var á svæðinu til að fylgjast með ættbálki fyrir frumbyggjastofnun yfirvalda í landinu. 

Vitni segja að Franciscato og samstarfsmenn hans hafi orðið fyrir skothríð þegar þeir nálguðust hóp frumbyggja. Franciscato, sem var í fylgd lögreglu, reyndi að skýla sér á bak við farartæki hópsins en varð fyrir örvarskoti sem hæfði hann í bringuna. 

Lögreglumaður sem var með Franciscato í ferðinni segir að honum hafi tekist að fjarlægja örina. „Hann öskraði, dró örina úr bringunni, hljóp um 50 metra og hneig niður, látinn,“ segir lögreglumaðurinn um atvikið. 

Fram kemur á BBC að Franciscato hafi helgað líf sitt því að vernda frumbyggja regnskógarins gegn ágangi ólöglegra skógarhöggsmanna og öðrum utanaðkomandi áhrifum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert