Jean Castex, forsætisráðherra Frakklands, varar við því að kórónuveirufaraldurinn fari nú „augljóslega versnandi“ í landinu. Hann segir þó stefnt að því að forðast annað allsherjarútgöngubann líkt og sett var á í vor, en það yrði mikið reiðarslag fyrir hagkerfið.
Um tíu þúsund tilfelli kórónuveirunnar hafa greinst á dag síðustu tvo daga, og er það met síðan stórfelld sýnataka hófst í Frakklandi. Þá eru 42 af 101 sýslu Frakklands skilgreind sem „rauð svæði“ þar sem veiran er í miklum uppgangi.
Stjórnvöld stefna nú að því að taka milljón sýni vikulega. Ávarps Castex hafði verið beðið með eftirvæntingu og jafnvel búist við að hann myndi kynna hertari samkomutakmarkanir á landsvísu. Það varð þó ekki raunin.
Þess í stað lofaði Castex að sýnataka yrði efld en sagði að það væri í höndum yfirvalda á hverju svæði fyrir sig að ákveða sértækar samkomutakmarkanir. „Við verðum að geta lifað með veirunni án þess að snúa okkur að hugmyndinni um almennt samkomubann,“ sagði Castex. „Stefna okkar breytist ekki. Við verðum að berjast við veiruna án þess að setja allt samfélagið, menningarlíf, hagkerfi og menntun barna okkar á ís.“ Castex sagði að yfirvöld í Marseille, Bordeaux og Guadeloupe myndu á mánudag kynna áætlanir um hvernig takast megi á við útbreiðslu á svæðunum.