Norskur skólapiltur, sem nú er 17 ára, er á leið fyrir héraðsdóm í Østfold í október, borinn þeim sökum að hafa lagt á ráðin um að mæta með sprengiefni og skotvopn í framhaldsskóla sinn og úthella þar blóði.
Forsaga málsins nær aftur til sumarsins 2018 þegar sá, sem nú er ákærður, var 15 ára gamall. Hann ræddi þá við danskan pilt á ónefndum spjallvef og var skotárásin í Columbine-skólanum í Colorado í Bandaríkjunum vorið 1999 meðal umræðuefna, þar sem þeir Eric Harris og Dylan Klebold skutu tólf samnemendur sína og einn kennara til bana og særðu 21 áður en þeir styttu sér aldur.
Norski drengurinn tjáði þeim danska enn fremur að hann fýsti að verða „guðdómlegur“ en hvorugum þeirra Norðurlandabúanna var hins vegar kunnugt um að bandaríska alríkislögreglan FBI fylgdist með samtali þeirra, sem reyndar fór fram á tveggja mánaða tímabili, þar sem orðið „Columbine“ hefur líklega hringt einhverjum bjöllum.
FBI hafði í framhaldinu samband við norsk og dönsk lögregluyfirvöld og nú er staðan sú að norski drengurinn gæti átt yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsi fyrir að hafa haft í „alvarlegum hótunum við varnarlausa borgara“.
„Ég get staðfest að norski drengurinn, sem nú er ákærður, átti samtal við danskan dreng og við höfum verið í samstarfi við dönsku lögregluna og FBI,“ segir Stian Moltke-Hansen Tveten, lögmaður austurumdæmis norsku lögreglunnar, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, en Tveten sækir málið fyrir hönd héraðssaksóknara.
Segir hann mikilvægt að dómstólar fjalli um slík mál sem lið í því hlutverki lögreglunnar að afhjúpa, hindra og með öðrum hætti afstýra afbrotum.
Torgeir Røinås Pedersen, verjandi piltsins, segir skjólstæðingi sínum verulega brugðið, hann hafi engin áform haft um að framkvæma nokkuð í líkingu við það sem á hann er borið. „Þetta var spjall í lokuðu spjallkerfi sem vatt upp á sig. Þetta á sér enga stoð í raunveruleikanum,“ segir Pedersen við NRK.
„Honum þykir það mjög þungbært að þetta komi nú upp á ný eftir tvö ár,“ segir verjandinn enn fremur og vísar til þess að norska lögreglan setti sig fyrst í samband við ákærða árið 2018 vegna málsins. Hann hafi hins vegar aldrei haft nokkuð illt í hyggju.
Tveten saksóknari segir lögregluna hafa þungar áhyggjur af þeirri þróun í þjóðfélaginu, að þröskuldurinn í vegi ýmiss konar brotastarfsemi sé orðinn býsna lágur á samfélagsmiðlum. „Við sjáum æ fleiri dæmi um hótanir og annað glæpsamlegt athæfi af hálfu ungs fólks á miðlunum,“ segir Tveten.
Könnun samfélagsöryggisstofnunarinnar DSB (Direktoratet for samfunnssikkerhet og beredskap) frá árinu 2016 leiddi í ljós að sex af hverjum tíu norskum sveitarfélögum hafa sett sér aðgerðaáætlun vegna hugsanlegra skotárása í skólum sínum enda berst skólunum jafnan fjöldi hótana um slíkar árásir, tímabilið 14. – 28. janúar í ár bárust norskum skólum 190 árásarhótanir.
NRKII (190 hótanir í janúar)