Fjölda saknað í gróðureldunum

Eyðilegging vegna eldanna í Oregon er gríðarleg.
Eyðilegging vegna eldanna í Oregon er gríðarleg. AFP

Fjölda er saknað í miklum gróðureldum í Oregonríki í Bandaríkjunum. Um 1,8 milljónir hektara lands hafa brunnið í miklum eldum sem hafa logað á vesturströnd Bandaríkjanna. 

Kate Brown, ríkisstjóri Oregon, biðlar til íbúa ríkisins að yfirgefa heimili sín á eldssvæðum, þrátt fyrir sögusagnir um þjófnað á yfirgefnum heimilum. 

Yfirmaður almannavarna í Oregon, Andrew Phelps, hefur varað við því að fleiri tugir gætu látist vegna eldanna í ríkinu. Almannavarnir hafa staðfest að um 10% íbúa ríkisins hafi neyðst til að flýja eldana, en íbúafjöldinn þar er alls um 4,2 milljónir. Hið minnsta fjórir hafa látist af völdum eldanna í ríkinu. 

Brown tilkynnti í gær að 40.000 íbúar féllu undir rýmingaráætlun yfirvalda. Hundruðum þúsunda íbúa hefur verið ráðlagt að yfirgefa heimili sín án þess að falla undir rýmingaráætlunina. 

Fram kemur á BBC að 16 eldar logi nú í Oregon, en hitastig fer kólnandi og aukinn raki í loftinu hefur reynst slökkviliðsmönnum vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert