Gulvestungar tóku aftur upp þráðinn í París í dag og mótmæltu frönsku ríkisstjórninni í fyrsta sinn frá því faraldur kórónuveirunnar tók að breiðast um heimsbyggðina.
Svo virðist sem skipuleggjendum mótmælanna hafi þó mistekist að safna saman sama fjölda og tíðkaðist í fyrri mótmælum þeirra.
Kveikt var í ruslatunnum og að minnsta kosti tveimur bifreiðum í borginni. Notaðist lögregla við táragas til að stemma stigu við hegðun mótmælenda í París og einnig í Lyon og Toulouse. Annars staðar eru mótmælin sögð hafa gengið friðsamlega fyrir sig, samkvæmt umfjöllun fréttaveitunnar AFP.