Friðarviðræður talíbana og afganskra yfirvalda eru hafnar í Katar. Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir viðræðurnar sögulegar, en hann er sjálfur staddur í höfuðborg Katars Doha og mun taka þátt í viðræðunum.
Viðræðurnar áttu að hefjast í febrúar í kjölfar friðarsamnings Bandaríkjanna við talíbana, en áframhaldandi ofbeldi í Afganistan og ágreiningur um skipti á pólitískum föngum hafa tafið viðræðurnar hingað til.
Sendinefnd Afgana yfirgaf afgönsku höfuðborgina Kabúl og flaug til Doha föstudaginn 11. september, 19 árum upp á dag frá árásinni á Tvíburaturnana í New York sem urðu endalok yfirráða talíbana í Afganistan.
Fram kemur á BBC að um er að ræða fyrstu viðræður afganskra yfirvalda og talíbana, en talíbanar hafa hingað til neitað því að ræða við afgönsk yfirvöld sem þeir hafa kallað „strengjabrúður“ Bandaríkjamanna.