Talið er að hátt í 50 manns hafi látist þegar gullnáma hrundi saman í austurhluta Kongós í gær. Gríðarleg rigning hefur verið á svæðinu.
Slysið varð í Kivu-héraði, en héraðsstjórinn Theo Ngwabidje segir að flestir hinna látnu hafi verið ungir að aldri. Hann segir að enn liggi fjöldi látinna ekki fyrir. Tveggja daga sorgartíma hefur verið lýst yfir í héraðinu og íbúar þess eru hvattir til að aðstoða við að bera kennsl á hina látnu.
Jean Nondo, íbúi Kivu sem varð vitni að slysinu, segir að aðeins einn þeirra verkamanna sem voru í námunni þegar hún hrundi hafi lifað af. Á sem er nærri námunni hafi yfirfyllst í rigningunni undanfarna daga og flætt inn í námuna.
Námuslys, oft banvæn, eru tiltölulega algeng í óskráðum námum í Kongó, þar sem óvanir menn grafa djúpt eftir gullæðum.