Prófanir á bóluefni bresk-sænska lyfjarisans AstraZeneca og Oxford-háskóla við kórónuveirunni eru hafnar á ný í kjölfar þess að bresk eftirlitsstofnun gaf þeim grænt ljós.
Hlé var gert á prófunum á bóluefninu eftir að einn af þeim sem tóku þátt í þeim veiktist.
Í tilkynningu frá AstraZeneca kemur fram að breska lyfjaeftirlitið (MHRA) hafi komist að þeirri niðurstöðu að óhætt væri að halda prófunum áfram.
Oxford-háskóli hefur staðfest að prófanir séu hafnar á ný. Í tilkynningu frá skólanum kemur fram að það sé ekki óeðlilegt að þátttakendur í stórum prófunum sem þessum veikist, en gæta verði fyllsta öryggis í slíkum atvikum.
Vonast er til þess að bóluefnið verði tilbúið í lok þessa árs eða byrjun þess næsta. Íslensk stjórnvöld hafa samið við Svía um milligöngu á bóluefninu hingað til lands.