Slóvensk kona sem sagaði af sér eigin hönd hefur verið sakfelld fyrir tryggingasvik.
Julija Adlesic, 22 ára, keypti sér fimm mismunandi sjúkratryggingar á einu ári í aðdraganda slyssins, sem hún fullyrðir að hafi orðið þegar hún var við garðyrkjustörf. Hefði hún ekki verið sakfelld fyrir tryggingasvik hefði hún fengið eina milljón evra, því sem jafngildir um 160 milljónum króna, úr tryggingunum fyrir handarmissinn.
Adlesic var handtekin ásamt kærasta sínum og ættingjum á síðasta ári eftir að hún leitaði á sjúkrahús handarlaus fyrir neðan úlnlið. Saksóknarar þóttu fyrir dómi hafa sýnt fram á að hún og kærasti hennar hefðu vísvitandi skilið höndina eftir þegar þau leituðu á sjúkrahúsið til að tryggja að fötlun hennar væri varanleg. Yfirvöld fundu þó höndina í tæka tíð og var hún saumuð aftur á.
Þá þótti einnig sannað fyrir dóminum að kærasti Adlesic hefði leitað að gervihendi á netinu fáeinum dögum áður en höndin var söguð af.
Adlesic var dæmd í tveggja ára fangelsi, en kærasti hennar fékk þriggja ára fangelsisdóm. Þá fékk tengdafaðir Adlesic eins árs fangelsisdóm.