Gríski forsætisráðherrann Kyriakos Mitsotakis tilkynnti í dag að stjórnvöld þar í landi hygðust efla vopnabúr sitt verulega og endurskipuleggja herinn.
„Það er kominn tími til að styrkja heraflann. Þessar aðgerðir fela í sér miklar ráðstafanir, sem verða skjöldur þjóðarinnar,“ sagði forsætisráðherrann í sérstakri ræðu af þessu tilefni í Þessalóníku í dag.
Mitsotakis segir Grikkland munu kaupa átján franskar orrustuþotur af gerðinni Rafale, auk fjögurra freigáta og fjögurra herþyrlna. Á sama tíma er stefnt að því að ráða 15 þúsund manns til viðbótar í herinn og dæla fé í hergagnaframleiðslu og netöryggisvarnir.
Einnig felst í aðgerðunum uppfærsla fjögurra freigáta sem ríkið á nú þegar. Er búist við að allt saman komi þetta til með að skapa þúsundir nýrra starfa, að sögn ráðherrans.
Tyrkland sendi í ágúst könnunarskip og lítinn herflota til að kanna jarðskorpuna á svæði sem Grikkland telur sitt eigið samkvæmt sáttmálum sem gerðir voru til að binda enda á stríð þjóðanna.
Mitsotakist sagði Tyrkland ógna austurmærum Evrópu og grafa undan öryggi í heimshlutanum.