Tókst að minnka matarsóun um 50-70%

Á Lovund-hótelinu í Hálogalandi hefur baráttan við kórónuveiruna skilað sér …
Á Lovund-hótelinu í Hálogalandi hefur baráttan við kórónuveiruna skilað sér í minni matarsóun gesta.

Óvenjulegir tímar kalla á óvenjulegar lausnir. Á tímum veirunnar hafa hótel í Noregi leitað nýrra leiða til að koma til móts við þarfir viðskiptavina sinna

Þegar bannað var að bera fram hefðbundið morgunverðarhlaðborð af sóttvarnaástæðum um miðjan mars ákvað starfsfólk á Lovund-hótelinu í Hálogalandi að prófa eitthvað nýtt. Bannið stóð í fjóra mánuði en útkoman var svo vel heppnuð að ákveðið hefur verið að snúa ekki aftur til fyrri siða. 

Á Lovund-hótelinu var tekinn upp sá siður að bjóða gestum upp á tilbúnar samlokur og mæltist sú lausn vel fyrir meðal þeirra. Rétt er að taka fram að gestum var ekki beint í kot vísað, kokkarnir leggja að sögn mikinn metnað í samlokugerðina.

„Diskarnir koma flestir tómir til baka. Það eru næstum engir afgangar sem þarf að henda,“ segir framkvæmdastjórinn Sivert Olaisen í viðtali við norska ríkisútvarpið.

Gestir fagnað breytingunni

Niðurstaðan er sú að matarsóun hefur minnkað til mikilla muna með þessari útfærslu morgunverðar á hótelinu. Olaisen áætlar að matarsóun hafi minnkað um 50-70% af þessum sökum. „Þetta er miklu minna. Við höfðum í raun ekkert hugsað út í þetta en útkoman kemur mér ekki á óvart. Ef þú ferð eitthvað og kaupir þér samloku, þá viltu borða hana,“ segir hann.

Olaisen segir að þessi háttur verði áfram hafður á, enda hafi gestir fagnað breytingunni. „Þeir eru almennt ánægðir með þetta og því viljum við halda þessu áfram. Faraldurinn hefur enn áhrif á markaðinn. Almennt held ég að fólk sé enn ekki tilbúið að deila mataráhöldum með öðrum.“

Raunar er það svo að matarsóun hefur víða minnkað á hótelum í Noregi að undanförnu. Þetta kom skýrt fram í könnun Aftenposten í júlí. Á Thon-hótelunum var um tíma boðið upp á svokallað bendi-hlaðborð. Þá bentu gestir einfaldlega á það sem þeir vildu fá úr hlaðborði og starfsmaður skenkti þeim. „Fólk virðist standa sig betur en áður,“ sagði Arne Marius Berg hjá Thon-hótelunum en tölur þar á bæ sýna að matarsóun er enn að minnka þótt hefðbundið morgunverðarhlaðborð hafi að nýju verið tekið upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert