Greenpeace hættir aðgerðum í Svíþjóð

Ljósmynd/Greenpeace

Umhverfissamtökin Greenpeace hafa hætt mótmælaaðgerðum við olíuvinnslustöð í Svíþjóð eftir þriggja daga aðgerðir.

Síðasta fimmtudagskvöld hófu Greenpeace mótmælaaðgerðir við olíuvinnslustöð í Lysekil í suðurhluta Svíþjóðar. Sænska olíufyrirtækið Preem rekur stöðina, sem er stærsta olíufyrirtæki landsins.

Meðlimir samtakanna hindruðu aðkomu tankskipa sem áttu að skila stöðinni olíu, með bát á vegum Greenpeace.

Samtökin hafa einnig mótmælt víðar um Svíþjóð á síðustu vikum, en mótmælin snúa að fyrirhugaðri stækkun olíuvinnslustöðvar Preem, sem myndi, að sögn Greenpeace, auka losun gróðurhúsalofttegunda koma í veg fyrir það að Svíþjóð næði að uppfylla skilmála Parísarsamkomulagsins.

Stefan Lofven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Lofven, forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP

Afhenda Löfven kyndilinn

Í tilkynningu frá Greenpeace kemur fram að samtökin muni nú afhenda Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, kyndilinn.

„Við erum í miðri gríðarlega alvarlegri umhverfiskrísu, en forsætisráðherra verður að forgangsraða velferð okkar og velja Parísarsamkomulagið frekar en Preem,” segir í tilkynningunni.

Preem hefur tilkynnt að stækkun stöðvarinnar muni leiða til þess að fyrirtækið geti aukið gæði framleiðslunnar og aukið notkun endurnýjanlegra orkugjafa, sem mun jafna út losunina.

Stækkunin var samþykkt af sænska land- og umhverfisáfrýjunardómstólnum í júní, en lokaákvörðunin er í höndum yfirvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert