Fleiri en þrjátíu hafa látist í gróðureldum sem geisa víða á vesturströnd Bandaríkjanna. Fjölda er saknað. Tugir þúsunda hafa þurft að flýja heimili sín.
Í Oregon-ríki hefur verið varað við því að tugir til viðbótar gætu látist af völdum eldanna. Fjölmörg heimili hafa gjöreyðilagst í eldunum sem geisað hafa í um þrjár vikur.
Joe Biden, forsetaefni demókrata fyrir forsetakosningarnar í nóvember, sagði í gærkvöldi að „loftslagsbreytingar skapi yfirvofandi hættu á tilvist lífs okkar í þeirri mynd sem við þekkjum“, og sakaði hann Donald Trump Bandaríkjaforseta um að afneita þeim veruleika.
Forsetinn hyggst heimsækja Kaliforníuríki í vikunni.
Reykur vegna eldanna hefur gert það að verkum að loftgæði í Portland í Oregon-ríki eru nú þau minnstu í heiminum samkvæmt BBC.
Í Oregon loga nú 16 eldar og 40.000 íbúar falla undir rýmingaráætlun stjórnvalda. Hið minnsta tíu hafa látist í ríkinu en yfirvöld hafa varað við því að líklegt sé að fleiri séu látnir. Slökkviliðsstjóri ríkisins, Jim Walker, sagði af sér í gærkvöldi, skömmu eftir að hann var settur í launað leyfi vegna rannsóknar á starfsmannahaldi slökkviliðsins.