Kæra vinnuveitanda konu sem lést vegna veirunnar

Hæstiréttur Bandaríkjanna í höfuðborginni Washington D.C.
Hæstiréttur Bandaríkjanna í höfuðborginni Washington D.C. AFP

Borið hefur á því í Bandaríkjunum að fólk lögsæki vinnuveitendur sína fyrir að útsetja þá fyrir kórónuveirusmiti með því að láta það vinna við óviðunandi aðstæður. Fjölskylda konu sem lést af völdum veirunnar hefur lögsótt hjúkrunarheimilið sem hún vann hjá vegna þess að konan smitaðist við ummönnun annarrar konu sem hafði smitast af kórónuveirunni.

Lögspekingar vestra telja líklegt að holskefla svipaðra lögsókna muni nú dynja á dómstólum í Bandaríkjunum.

Vissu að hún væri smituð

Að því er kemur fram í frétt CNN hefur fjölskylda Monicu Montgomery lögsótt hjúkrunarheimili í Texas eftir að Monica var látin sinna íbúa heimilisins sem þurfti sólarhringsummönnun í kjölfar aðgerðar sem hún gekkst undir.

Forstöðumenn hjúkrunarheimilisins vissu að konan væri smituð af kórónuveirunni en þeim láðist að segja starfsmönnum sínum frá því. Konan smitaði Monicu og fjóra aðra starfsmenn með þeim afleiðingum að Monica lést, aðeins 44 ára að aldri.

Telur fjölskylda Monicu að forstöðumenn hjúkrunarheimilisins hafi þar með gerst sekir um að búa þannig um vinnuaðstæður hennar að hún lést.

Hundruð svipaðra mála

Samkvæmt greiningum virtra lögfræðistofa í Bandaríkjunum er lögsókn fjölskyldu Monicu aðeins ein af nokkur hundruð slíkum lögsóknum. Óttast er að þúsundir fleiri mála muni koma upp á yfirborðið í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Lögsóknir sem vísað er til eru sagðar vera frá kvörtunum um óviðunandi aðstæður á vinnustöðum sem útsetji starfsmenn fyrir kórónuveirusmiti til dauðsfalla þar sem grunur er um saknæmt athæfi líkt og í máli Monicu Montgomery.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert