Tony Blair og John Major, fyrrverandi forsætisráðherrar Bretlands, hafa biðlað til þingmanna breska þingsins um að hafna tillögu Boris Johnsons forsætisráðherra, sem fæli í sér að ekki yrði tekið tillit til ákveðinna hluta Brexit-samnings Breta við Evrópusambandið.
Blair og Major segja bresku ríkisstjórnina „niðurlægja“ bresku þjóðina.
Frumvarp til laga um innri markað Evrópu verður til umræðu á breska þinginu á mánudag. Frumvarpið brýtur í bága við útgöngusamning Bretlands við Evrópusambandið.
Blair og Major segja aðgerðir ríkisstjórnarinnar „óábyrgar, í meginatriðum rangar og hættulegar í framkvæmd“.
Ráðherrarnir fyrrverandi, sem báðir eru mótfallnir Brexit, segja skuldbindingar Bretlands á grundvelli útgöngusamningsins „alveg jafn mikilvægar“ og sett lög í landinu. Þeir hvetja þingmenn breska þingsins til að greiða atkvæði gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar.