Lögreglumaður rekinn eftir að kýla mann ítrekað

Úr myndbandinu sem var dreift á Instagram.
Úr myndbandinu sem var dreift á Instagram. Skjáskot

Lögreglumaður í bandarísku borginni Atlanta var rekinn fyrir að beita of miklu valdi eftir að myndband sem dreifðist um vefinn í gær sýnir hann kýla mann ítrekað. Embætti sýslumanns í Clayton-sýslu hefur gefið það út að atvikip verði rannsakað. 

Myndband af því fór í dreifingu á samfélagsmiðlinum Instagram í gær. Þar sjást tveir lögreglumenn halda manninum niðri og annar sparka í andlit hans. Annar lögreglumaðurinn öskrar „hann beit í höndina á mér“. Annað myndband sem er tekið frá öðru sjónarhorni sýnir grátandi börn í grenndinni og heyrist annað þeirra kalla „pabbi!“.

Hér að neðan má sjá myndbandið en viðkvæmir eru varaðir við innihaldi þess. 

Var á skilorði

Maðurinn sem var beittur þessu ofbeldi heitir Roderick Walker. Hann hefur verið ákærður fyrir líkamsárás og fyrir að hindra starf lögreglumanna. Walker er í haldi en lögmaður hans hefur krafist lausnar Walkers. Þeirri beiðni hefur verið hafnað vegna þess að handtökutilskipun hafði verið gefin út á hendur Walker áður en hann var handtekinn síðastliðinn föstudag. Walker var á skilorði vegna ofbeldis gagnvart börnum og vörslu skotvopns, samkvæmt frétt CNN

Barsmíðar vegna skilríkjaleysis

Shean Williams, lögmaður Walkers, sagði um helgina að atvikið hefði átt sér stað eftir að kærasta hans og eitt barna hans höfðu skilað bíl sem þau höfðu haft á leigu. Þau höfðu þá beðið leigubíl um far heim en bílstjórinn var ekki á vakt. Hann samþykkti að keyra þau heim en bíllinn var stöðvaður af lögreglu vegna brotins afturljóss. Í kjölfarið kröfðust lögreglumenn þess að Walker sýndi skilríki sín sem hann var ekki með á sér. Að sögn Williams komust lögreglumennirnir í uppnám þegar Walker spurði þá hvers vegna þeir þyrftu að sjá skilríki hans. 

Þá hefðu lögreglumennirnir beðið hann að koma út úr bílnum sem hann gerði og í kjölfarið hófust barsmíðarnar, að sögn Williams. 

Walker er svartur og hefur atvikið vakið enn meiri reiði á meðal Bandaríkjamanna sem hafa undanfarið mótmælt lögregluofbeldi gegn svörtu fólki í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert