„Þeir sem hafa efni á því fá hreint loft“

Númi Sveinsson, doktorsnemi í vélaverkfræði við Berkeley-háskóla í Kaliforníuríki, segir það kaldhæðnislegt að skógareldar á vesturströnd Bandaríkjanna muni líklega hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins í ríkjunum, þar sem íbúar séu líklegri til að halda sig innandyra vegna eldanna og reykmengunar. „Maður þorir varla að spyrja hvað kemur næst, veira og eldar og ég veit ekki hvað. Ætli það séu ekki kosningarnar sem verða eitthvert sjónarspil,“ segir Númi. 

Berkeley-háskóli er nærri San Francisco-borg, en gróðureldar hafa nú geisað í Kaliforníu og fleiri ríkjum á vesturströndinni í fleiri vikur. Eldarnir hafa haft í för með sér eyðileggingu á um 1,3 milljóna hektara svæði í Kaliforníu. Hátt í 16.500 slökkviliðsmenn hafa barist við eldana, þeir stærstu eru um 28 talsins. 24 eru látnir vegna eldanna og 4.200 byggingar eru eyðilagðar. 

Í Berkeley hafa loftgæðin verið mjög lítil að sögn Núma. 

„Veðráttan hefur verið þannig að reykurinn hefur komið hingað að ströndunum sem gerir það að verkum að loftgæðin eru bara ómannúðleg, hættuleg. Það er bara ólíft að vera úti. Stjórnvöld hafa ráðlagt okkur að vera inni síðustu tvær vikurnar og það lítur út fyrir að það verði þannig áfram í einhvern tíma í viðbót,“ segir Númi og bætir við að talsvert sé eftir af gróðureldatímabilinu í Kaliforníu. 

Númi Sveinsson doktorsnemi er búsettur í Kaliforníuríki.
Númi Sveinsson doktorsnemi er búsettur í Kaliforníuríki. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Þetta þýðir til dæmis að ég get ekki farið út að hlaupa eða í göngutúra. Eina sem ég fer út er til þess að kaupa mér mat eða kaffi, en þá þarf maður alltaf að vera með svona N95-grímu,“ segir Númi, en slíkar grímur hafa meðal annars verið notaðar af heilbrigðisstarfsfólki víða um heim í kórónuveirufaraldrinum. 

„Þetta fer allavega ekki vel með mig persónulega. Ég er nýfluttur hingað og er svona rétt að reyna að kynnast bekkjarfélögunum. Það er nógu erfitt að forðast það að hitta fólk út af veirunni svo það bætist ekki ofan á að maður megi ekki fara út. Þetta hefur áhrif á svo margt, bæði félagslega en svo er það þegar maður er að vinna heima, þá þarf ég persónulega að komast úr og hreyfa mig, fá smá vind í andlitið. En núna er maður bara fastur inni í kassa,“ segir Númi. 

Stjórnvöld hafi hunsað vandamálið of lengi 

Númi segir stéttaskiptingu í Bandaríkjunum koma glöggt í ljós undir þeim kringumstæðum sem nú eru uppi. 

„Maður gerir sitt besta til að opna aldrei glugga, loka dyrunum strax og svo getur maður, ef maður á pening til, keypt sérstakan lofthreinsibúnað sem síar loftið inni í húsinu. En slíkt getur verið mjög dýrt. Það er mikið af heimilislausu fólki hérna og fólki sem á bara ekki peninginn til að kaupa svona búnað, sem býr til mjög sorglega stéttaskiptingu í menguninni. Þeir sem hafa efni á því fá hreint loft og þeir sem hafa ekki efni á því þurfa að anda að sér reyknum,“ segir Númi. 

Slökkviliðsmaður í Kaliforníu.
Slökkviliðsmaður í Kaliforníu. AFP

Númi segir stjórnvöld hafa kallað til slökkvilið úr öðrum ríkjum og allt sé gert til þess að ráða niðurlögum eldanna. Stjórnvöld hafi hins vegar hunsað loftlagsbreytingar of lengi, en bæði Joe Biden, forsetaefni demókrata, og ríkisstjóri Kaliforníu hafa sagt að eldarnir séu af völdum loftslagsbreytinga. 

„Það eru guði sé lof ekki eldar nálægt okkur, enda hefur maður það á tilfinningunni að þeir eldar sem eru nálægt svona stórum byggðum fái meiri athygli hvað varðar slökkvistarf. Maður hefur aðallega verið að lesa um minni bæi innar í Kaliforníu þar sem fólk hefur verið að missa aleiguna og jafnvel lífið,“ segir Númi. 

„Stjórnvöld eru að vakna upp við vondan draum í rauninni. Loftslagsbreytingar hafa setið á hakanum alltof lengi og núna erum við að sjá afleiðingarnar. Til skamms tíma litið þarf náttúrlega að slökkva þessa elda, en stjórnvöld eru alls ekki að gera nóg til þess að stemma stigu við framtíðaráhrifunum. Kalifornía þyrfti að gera mun betur í losun gróðurhúsalofttegunda og svo framvegis. Hvað varðar þessa elda núna er verið að kalla inn slökkvilið frá öðrum ríkjum og það er allt gert. En mér finnst stressandi að sjá ríkasta land í heimi eiga erfitt með að stemma stigu við eldum í dag, hvað þá það sem við munum upplifa eftir fimm til tíu ár,“ segir Númi. 

Kaldhæðni að mengun þurfi til að fólk haldi sig heima 

Donald Trump Bandaríkjaforseti heimsótti Kaliforníuríki í gær. Þar gaf hann í skyn að hlýnun jarðar myndi snúast við af sjálfsdáðum. Auk þess sagði hann að loftslagsbreytingar hefðu ekki valdið skógareldunum, en sem áður segir hafa ríkisstjóri Kaliforníu og aðrir embættismenn í ríkinu sagt að hækkandi hitastig væri orsök eldanna. „Það mun byrja að kólna, sjáið bara til,“ sagði Trump.

Númi segir ummæli forsetans óforsvaranleg. 

„Forsetinn sagði á fjöldafundi í Nevadaríki í vikunni, þar sem gestir fundu lyktina af reyknum, að hann stæði stoltur með því að hafa dregið Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu, sem er alveg gjörsamlega óforsvaranlegt. Valdamesti maður landsins stendur bara ekki með þeim sem eru að missa aleiguna eða týna lífinu eða þurfa að anda að sér menguninni,“ segir Númi. 

Eyðileggingin í ríkinu er gríðarleg.
Eyðileggingin í ríkinu er gríðarleg. AFP

Númi segir að námið við Berkeley hafi verið rafrænt vegna veirunnar áður en loftgæðin urðu hættuleg vegna eldanna. Það hafi því ekki orðið breytingar á kennslu, en hann merkir það þó að íbúar borgarinnar haldi sig frekar heima vegna mengunarinnar. 

„Út af veirunni var búið að hamla för fólks mikið, en það er kannski kaldhæðnin í þessu að loftgæðin núna og mengunin hafa jákvæð áhrif á útbreiðslu faraldursins af því að fólk heldur sig núna meira inni,“ segir Númi.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert