Frambjóðendur á ferð og flugi

Donald Trump og Joe Biden.
Donald Trump og Joe Biden. AFP

Kosningabaráttan í Bandaríkjunum er nú komin á fullt. Skoðanakannanir benda til þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti eigi á brattann að sækja, nú þegar innan við fimmtíu dagar eru til kjördags, en hann verður 3. nóvember næstkomandi. Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrata, hefur þannig mælst með nokkuð örugga forystu á landsvísu, eða um 50% fylgi, en forsetinn hefur verið með um 42-43% fylgi.

Kannanir á landsvísu segja hins vegar ekki alla söguna, því að á endanum eru það kosningar í hverju ríki fyrir sig sem munu ráða því hver verður næsti forseti Bandaríkjanna.

Joe Biden, frambjóðandi demókrata, ræðir við blaðamenn á flug-vellinum í …
Joe Biden, frambjóðandi demókrata, ræðir við blaðamenn á flug-vellinum í Tampa, en þetta var fyrsta heimsókn hans þangað í baráttunni. AFP

Ekki er á vísan að róa í þeim efnum og eru því bæði Biden og Trump nú á faraldsfæti vítt og breitt um Bandaríkin til þess að vinna sér inn sem mest fylgi fyrir lokasprettinn. Það hvert frambjóðendurnir ferðast segir hins vegar ýmislegt um landslag kosninganna, en bæði Biden og Trump leggja nú höfuðáherslu á nokkur lykilríki, sem munu ráða úrslitum í haust.

Kosið „rétt“ frá 1996

Biden heimsótti þannig Flórídaríki í fyrsta sinn í kosningabaráttunni nú í vikunni, en ríkið hefur oft verið talið meðal þeirra sem skipta hvað mestu máli í kapphlaupinu um Hvíta húsið. Frá árinu 1996 hefur sá frambjóðandi sem unnið hefur ríkið einnig náð meirihluta kjörmanna og forsetaembættinu um leið, en frægust er líklega rimma George W. Bush og Als Gore í kosningunum árið 2000, þar sem niðurstaðan valt á því hvor hefði betur í Flórídaríki.

Donald Trump Bandaríkjaforseti blæs fingurkossum til stuðn-ingsmanna sinna eftir þéttsetinn …
Donald Trump Bandaríkjaforseti blæs fingurkossum til stuðn-ingsmanna sinna eftir þéttsetinn kosningafund sinn í Las Vegas í Nevada. AFP

Það ýtir undir „sveifluhneigð“ ríkisins, að íbúar þess skiptast nokkuð jafnt milli flokka, en Repúblikanaflokkurinn hefur þó á síðustu árum átt ögn meira fylgi í ríkinu en meðaltal hans á landsvísu hefur sagt til um.

Vegið meðaltal skoðanakannana í ríkinu bendir til þess að hann njóti þar 48,2% fylgis, en Trump 47%. Munurinn er þar því einungis um 1,2 prósentustig í ríkinu, sem skýrist að einhverju leyti af því að forsetinn hefur á síðustu vikum náð að sækja í sig veðrið meðal karlmanna af rómönskum uppruna.

Mikilvægi Flórída endurspeglast einnig í því að milljarðamæringurinn Michael Bloomberg tilkynnti fyrr í vikunni að hann hygðist verja 100 milljónum bandaríkjadala til kosningabaráttu Bidens í ríkinu. Ekki er víst hvaða áhrif sú peningagjöf mun hafa, en á sama tíma berast fregnir af því að framboð Trumps eigi nú í nokkrum fjáröflunarvandræðum.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert